2004-05-04 02:16:20# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[26:16]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta svar hjá hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur fór vægast sagt út um allar þorpagrundir. Erfitt var að átta sig á því hvað hún var að fara. Hins vegar tel ég að það hafi skinið berlega í gegn að hún er einmitt að rugla saman tveimur ólíkum hugtökum sem stjórnarliðar hafa markvisst, eða ómarkvisst, gert í heila viku. Þeir rugla saman annars vegar fjölbreytni í fjölmiðlun og hins vegar fjölbreytni í eignaraðild. Þetta er tvennt ólíkt. Fjölbreytni í fjölmiðlun hefur aldrei verið jafnmikil í Íslandssögunni og í dag.

Hitt er svo annað mál, og það er allt önnur hlið á peningnum, einmitt fjölbreytni í eignaraðild. Ég hvet hv. stjórnarliða til að hætta að rugla svona með umræðuna og reyna, að ég held meðvitað, að slá ryki í augu fólks með því að tala alltaf um fjölbreytni. Fjölbreytni, fjölbreytni, fjölbreytni. Þeir mættu kveða fastar að orði, og skýrar, segja fjölbreytni í eignaraðild, hætta að rugla með þetta hugtak, fjölbreytni.