2004-05-04 02:24:18# 130. lþ. 108.2 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 130. lþ.

[26:24]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Það er búið að vera ansi athyglisvert að fylgjast með umræðunni í dag. Hún hefur farið út um víðan völl eins og oft vill verða. Ég hef sérstaklega tekið eftir einu sem mér finnst hafa vantað í umræðuna --- þetta snýst um eignarhald á fjölmiðlum eins og við vitum --- en það er einmitt hugsanlegur þáttur Morgunblaðsins í öllu saman.

Ég hygg, hæstv. forseti, að ef þetta frv. fer í gegn muni það verða til þess að Morgunblaðið muni að einhverju leyti ná að rétta hlut sinn gegn bæði Fréttablaðinu og DV. Það hefði verið mjög fróðlegt að fá að sjá í tengslum við þessa umræðu hvernig þróunin hefur verið hjá Morgunblaðinu á undanförnum missirum frá því að Fréttablaðið kom til sögunnar sem ókeypis miðill sem dreift er í öll hús á höfuðborgarsvæðinu og fer einnig mjög víða um land allt, þ.e. hvernig markaðshlutur Morgunblaðsins hefur breyst hvað varðar áskriftir, auglýsingar og annað þess háttar. Morgunblaðið eða það félag sem á það, Árvakur, er í eigu lítillar klíku innan Sjálfstfl., eins og ég hef áður sagt. Sú ríkisstjórn sem nú er við völd er einmitt mynduð af Sjálfstfl. og Framsfl.

Meðal þeirra sem eiga Morgunblaðið eða eiga hlut í Árvakri eru hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason og ættingjar hans. Hann hefur varið þetta frv. með kjafti og klóm. Ég hef reyndar tekið eftir því að hann hefur verið fjarverandi í allan dag, hvað sem því veldur. Maður hlýtur að spyrja sig hvað valdi fjarveru hæstv. dómsmrh. í allan dag. Maður hefði haldið að hann hefði áhuga á að taka þátt í umræðunni. En nóg um það, hæstv. forseti.

Ég vil fá að koma svolítið að málflutningi framsóknarmanna í dag. Hann hefur verið loðinn, vægast sagt, og farið í ýmsar áttir. Þingmenn Framsfl. hafa flestir talað hlýlega um frv. og sagst styðja það. Einn þeirra gerir það ekki, hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson. Síðan hafa komið fram mjög alvarlegar athugasemdir hjá ungum framsóknarmönnum, að virðist vera, sérstaklega norðan úr landi. Það er einkar athyglisvert. Fyrr í dag fór ég yfir grein sem birtist eftir einn þeirra, Jón Einarsson minnir mig, sem mér skilst að sitji í varastjórn Samtaka ungra framsóknarmanna. Hann veittist mjög harkalega og með óbilgjörnum hætti að hv. þm. Birgi Ármannssyni, Sjálfstfl. Skömmu eftir að ég greindi frá skrifum þessa unga framsóknarmanns vildi svo furðulega til að vefsíðunni þar sem þessi skrif birtust, maddaman.is, var lokað. Ef maður slær inn slóðina núna stendur að hún sé því miður óaðgengileg vegna bilunar í hugbúnaði.

Mér þykir skjóta ansi skökku við, virðulegi forseti, að eftir að hafa verið í rekstri í nokkur missiri skuli þessi síða taka upp á því að hrynja hálftíma eftir að ég yfirgef ræðustól Alþingis þar sem ég upplýsi þessi skrif sem hafa verið á þessum ágæta vef allt frá 27. apríl sl.

Þessi makalausa grein frá ungum framsóknarmönnum, að ég ætla --- ég vel að trúa því að þetta sé frá þeim komið vegna þess að það stendur meira að segja á vef hins háa Alþingis að maddaman.is sé vefur ungra framsóknarmanna og það stendur líka á heimasíðu hæstv. umhvrh., Sivjar Friðleifsdóttur, að þessi síða sé síða ungra framsóknarmanna --- þar sem fram koma alvarlegar ásakanir á hendur hv. þm. Birgi Ármannssyni, að því er ég best fékk séð, er enn þá til. Ungir framsóknarmenn, og framsóknarmenn yfir höfuð, munu eflaust ekki sleppa svo billega frá þessum skrifum sínum. Ég hygg að Sjálfstfl. sé ekki vanur að láta vaða yfir sig á skítugum skónum, jafnvel þó að um samstarfsflokk í ríkisstjórn sé að ræða. Hér var, eins og ég nefndi áðan, um mjög alvarlegar aðdróttanir að ræða.

Ég vildi aðeins að þetta fengi að koma fram. Ég vil svo enn og aftur í lok máls míns, herra forseti, fá að ítreka það að við í Frjálsl. höfum ekkert á móti því að eignarhald íslenskra fjölmiðla verði skoðað, farið verði ofan í saumana á því sem og fákeppni á fjölmiðlamarkaði. Við höfum ekkert á móti því. Við teljum hins vegar að það verði að vanda betur til verka. Við þurfum að gefa okkur meiri tíma til að skoða þessa hluti, ekki rasa um ráð fram því að hér er um svo vandasamt mál að ræða. Að sjálfsögðu ber okkur einnig að líta á fákeppni á matvörumarkaði, fjármálamarkaði og í öðrum geirum viðskiptalífsins.

Ef þetta frv. verður gert að lögum hlýtur það að vekja upp spurningar um hvar menn eigi í framtíðinni að fá fjármagn til að stofna og reka fjölmiðla. Ég er ekkert sannfærður um að svo ofboðsleg auðlind sé falin í því að reka fjölmiðla á þessum litla markaði sem Ísland er. Í framhaldi af þessu rifjast einmitt upp fyrir mér saga af hæstv. forsrh. sem mér var sögð í Stýrimannaskólanum á dögunum. Ungur maður sem nú stundar þar nám kom að máli við forsrh. í kosningabaráttunni í fyrravor og sagði við hann: Ég er ungur, efnilegur sjómaður og ég er í Stýrimannaskólanum. Mig langar til að eignast bát, verða minn eigin herra, verða sjálfstæður atvinnurekandi, eignast eigin útgerð. Ég bara get það ekki vegna þess að kvótinn er svo dýr. Það er erfitt að komast yfir kvóta, hann kostar svo mikla peninga. Hverju svaraði hæstv. forsrh.? Að sögn hins unga sjómanns sem talaði við okkur, þingmenn, í Stýrimannaskólanum fyrir einum og hálfum mánuði sagði forsrh.: Farðu og keyptu þér happadrættismiða.

Ef þetta frv. fer í gegn hygg ég að þeir sem hyggja á það að stofna fjölmiðla sem eiga að ná einhverri fótfestu hér á Íslandi muni þeir þurfa á miklu meira að halda en því að kaupa sér happadrættismiða. Eins og margoft hefur komið fram hér er mjög dýrt að stofna fjölmiðla á Íslandi í dag.