Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:39:37 (7578)

2004-05-04 14:39:37# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hina ágætu ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar en taka það jafnframt fram að frumvarpið sem við erum að fjalla um hefur fengið afskaplega góða og vandaða umræðu í samgöngunefnd, (Gripið fram í.) m.a. með þátttöku fótgönguliða hv. þingmanns og flokksformanns Össurar Skarphéðinssonar, þeirra hv. þingmanna Jóhanns Ársælssonar, Ástu R. Jóhannesdóttur og Einars Más Sigurðarsonar. Þetta ágæta fólk, þessir hv. þingmenn, unnu þetta mjög samviskusamlega með okkur öðrum sem í samgöngunefnd sitjum. Við rannsökuðum málið mjög vel og komumst að þessari niðurstöðu, að undan þessum alþjóðasamningum og samþykktum yrði ekki vikist. Jafnframt kom fram í nefndinni að menn munu leggja mjög mikið á sig til þess að kostnaður af þessu frumvarpi verði sem minnstur. Við teljum það einfaldlega mjög mikilsvert hversu vel allir þeir sem við fengum fyrir nefndina höfðu það í huga. Meðal annars það að gjaldtakan sem hv. þingmanni var svo tíðrætt um, það er að segja að sú gjaldtaka er þjónustugjöld sem þýðir að ekki má taka hærri gjöld fyrir það sem þarna fer fram en fyrir þá þjónustu sem veitt er, fyrir þá það eftirlit sem þarna mun fara fram. Þetta veit ég að hv. þm. Össur Skarphéðinsson skilur mjög vel. Ég sé nú ekki hvaða ástæðu hann hefur til að vefengja svona störf sinna eigin þingmanna og fótgönguliða.