Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:49:04 (7583)

2004-05-04 14:49:04# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:49]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að þetta eru reglur sem settar eru í framhaldi af aðild okkar að alþjóðlegum samningum og að við eigum engra kosta völ en vera aðilar að þessum samningum því ella munum við einfaldlega fara á svartan lista hjá stórþjóðum eins og Bandaríkjamönnum og það þýðir einfaldlega að þeir taka ekki á móti skipum sem koma héðan með vörur eða fara hingað. Svo einfalt er það nú.

Síðan blasir það við að af þessu hlýst ákveðinn kostnaður. Spurningin er þá hvernig við ætlum að mæta honum? Það sem ég er helst að deila hér á hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir er að þeir eru ekki samkvæmir sjálfum sér. Þeir tala um að draga eigi úr eftirlitsiðnaðinum. En þeir eru að auka hann. Þeir tala um að draga eigi úr álögum á atvinnulífið. En þeir eru að auka þessar álögur. Það sem er auðvitað merkilegast er að ekki liggur fyrir hvað þetta kostar. Ég hef að vísu spurt hv. þm. Birki Jón Jónsson sem hugsanlega tekur til máls um þetta mál síðar í dag hvort hann hafi gegnt þeirri þingskyldu að rannsaka það atriði. Hv. þm. kinkaði kolli með þeim hætti að við urðum þess vör alla leið hingað í ræðustól þannig að ég ímynda mér að við hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson upplifum þá ánægjustund hér á eftir að hv. þm. Birkir Jón Jónsson upplýsi okkur um þetta. Ef ekki þá þarf auðvitað að fara að efast um vinnubrögðin. Ég ætla nú ekki að gera það á þessu stigi.

Ég er sammála hv. þingmanni um að hér er enn verið að auka álögur á atvinnulífið. Það er í framhaldi af því að í fyrra rak hæstv. samgönguráðherra hér í gegn breytingar á hafnalögum sem leiddu til þess að kostnaður hafnanna við að reka sig og standa undir fjárfestingum stórjókst. Þá spyr maður sjálfan sig: Hvar er allt þetta frelsi atvinnulífsins sem Sjálfstæðisflokkurinn er að tala um?