Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:52:27 (7585)

2004-05-04 14:52:27# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:52]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmenn, sérstaklega þingmenn landsbyggðarinnar, geta að minnsta kosti glatt sig við eitt og það er að þetta frv. sem er upprunnið hjá Sjálfstæðisflokknum skapar fjölda starfa á landsbyggðinni því verið er að búa til hverja topphúfuna á fætur annarri inn í þessar áætlanir eins og ég rakti í ræðu minni áðan. Það sem skiptir mjög miklu máli er að hér er Sjálfstæðisflokkurinn að búa til sex tegundir nýrra eftirlitsgjalda. Hv. þm. hlýtur að vera mér sammála um að það er ærið umdeilanlegt hvort gott samræmi sé annars vegar á milli þeirrar gerðar og hins vegar þeirrar yfirlýstu stefnu þingmanna Sjálfstæðisflokksins að draga úr eftirlitsiðnaði. Engu er hægt að líkja jafn vel við þunga möru sem liggur á Sjálfstæðisflokknum og eftirlitsiðnaðinum. Það er með því allra versta sem sá flokkur veit um. Hann lætur kosta dýrar skýrslur við Háskóla Íslands til þess að skoða umfang hans. Svo kemur hann hingað og eykur þetta sama umfang.