Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 14:59:38 (7589)

2004-05-04 14:59:38# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[14:59]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég styð málið eins og fram hefur komið. Ég hef hins vegar bent á að það hefði verið æskilegt af hálfu hæstv. samgönguráðherra að það hefði verið búið úr garði með öðrum hætti. Það sem meiru máli skiptir fyrir hv. þm. Birki J. Jónsson er að ég styð hann. Ég styð hann í þeirri vinnu sem hann er að reyna að inna af höndum hér í þinginu. Það kom fram að hv. þm. hafði ekki, þrátt fyrir mikla rannsóknarvinnu, getað komist að því hvað þetta frumvarp kostaði. Það var ég sem hins vegar lagðist í að finna þær upplýsingar. Þetta kostar 300 milljónir. Þá veit hv. þm. það.

Það sem skiptir hins vegar máli í þessari umræðu og hv. þm. hefði auðvitað átt að taka undir er þessi staðreynd: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins eru hér í öðru orðinu að tala um nauðsyn þess að draga úr eftirlitsiðnaðinum. En í hinu orðinu eru þeir að styðja hér frumvarp þar sem verið er að leggja til sex nýjar tegundir af eftirlitsgjöldum. Það veit ég að hv. þm. Birkir J. Jónsson er mér sammála um að ætti ekki að vera.