Siglingavernd

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 15:20:23 (7596)

2004-05-04 15:20:23# 130. lþ. 109.2 fundur 569. mál: #A siglingavernd# frv. 50/2004, Frsm. GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[15:20]

Frsm. samgn. (Guðmundur Hallvarðsson) (andsvar):

Herra forseti. Í beinu framhaldi af niðurlagi ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar áðan þá minni ég á að hann sagði fyrr í dag í ræðu sinni að við ættum ekki annarra kosta völ en að leggja á þessi gjöld. ,,Ekki annarra kosta völ,`` orðrétt, virðulegi þingmaður Össur Skarphéðinsson. Síðan kemur hann upp og segir að þetta séu gjöld sjálfstæðismanna, fyrst og fremst.

Varðandi það hve hneykslaður hv. þm. er á þessum eftirlitsgjöldum þá man ég ekki betur en þegar hv. þm. var virðulegur umhverfisráðherra þá hafi komið fram nokkrar tillögur um gjaldtöku úr því háa ráðuneyti. Ég man ekki betur. Þingmaðurinn þekkir þetta vel og talar auðvitað af þekkingu og reynslu, nú þegar hann getur ýtt þessum málum frá sér og segist hvergi hafa komið nærri.

Varðandi það hvort á verði lögð sérstök gjöld vegna strandflutninga þá á ég ekki von á því. Ekki vegna þessa máls. Ákveðnar hafnir munu fá sérstaka heimild til að leggja á siglingaverndargjald. Ég á ekki von í því að allar hafnir landsins muni sækjast eftir því.