Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 17:08:58 (7610)

2004-05-04 17:08:58# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[17:08]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Frú forseti. Ég er þess fullviss að hv. þm. hefur reynt eins og hann mögulega gat að fá fram þessar upplýsingar því hann veit hvað það er nauðsynlegt fyrir okkur sem í nefndinni störfum að hafa þær þegar við höldum áfram. Það er rétt hjá hv. þm. að það eru einungis liðnir tveir dagar frá því að viðmiðunartímabilinu lauk en eins og ég sagði í framsögu minni trúi ég ekki öðru en unnið sé þannig í ráðuneytum að menn reyni að gera sér grein fyrir hlutunum fyrir fram og setji niður einhver líkön og velti fyrir sér hvaða tölur gætu komið upp. Aflaverðmætið liggur náttúrlega fyrir alla vega til loka mars þó að við séum ekki að fara framar í tímann þannig að hægt er að reikna út með 11/12 nákvæmni hvert gjaldið kemur til með að verða.

Í svari hv. þm. kom fram að sett hefði verið upp einhvers konar reiknilíkan og menn hefðu reynt að reikna þetta út. Það hefðu orðið breytingar á kostnaði, sem er alveg rétt, en þetta eru svo einfaldir hlutir að ég trúi því ekki að ráðuneytið geti ekki reiknað út eins og t.d. hvað viðmiðunarverð á olíu hefur breyst á viðmiðunartímabilinu. Það eru bara tvær tölur sem þarf að bera saman og reikna út hver breytingin hefur orðið.

Það sama á við um annan rekstrarkostnað. Ég trúi ekki öðru en ráðuneytið geti reiknað út hvað þessar 17.568 millj. eru orðnar núna. Þar er eingöngu miðað við vísitölu neysluverðs og hún liggur fyrir. Ég trúi því heldur ekki að ráðuneytið geti ekki reiknað 39,8% af aflaverðmæti þegar aflaverðmæti liggur fyrir. Ég verð því að hvetja hv. formann til þess að knýja á um að ráðuneytið svari okkur en láti ekki tímann líða þannig að við höfum ekki þessi svör þegar þingið fer í sumarleyfi.