Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 17:39:22 (7616)

2004-05-04 17:39:22# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. meiri hluta GHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[17:39]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Guðjón Hjörleifsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þekki ekki sögu þessa láns. Ég vísa í það sem stendur um þróunarsjóðinn, að hér sé um að ræða hreina eign þannig að lánið hlýtur þar að vera undanskilið, eða ég reikna með því. Þegar verið er að tala um hreina eign þá er ekki talað um skuld á móti. Það er alveg ljóst.

Hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson spyr mig hvort ég muni styðja þetta mál, varðveislu gamalla skipa og hvort það eigi að ráðstafa til þess úr þróunarsjóðnum. Ég þekki það, sem bæjarstjóri í Eyjum á sínum tíma, að endurbygging gamalla skipa er mjög kostnaðarsöm. Við slíkar framkvæmdir er mikill kostnaður. Það er alltaf spurning hvort taka eigi úr þessum sjóði, sem einnig þarf að nýta til hafrannsókna. Það er líka þörf á því. Það er líka þörf á að varðveita þessi skip. Spurningin er hvort þetta eigi að vera mál fjárln. Þeir hafa veitt til slíkra verka litla styrki og ég veit að það kostar mjög mikið ef gera á upp alvöruskip.

Ég staldra svolítið við þetta. Við höfum Húsafriðunarsjóð, af hverju eigum við ekki að huga að skipafriðunarsjóði í framtíðinni, með einhverri fjármögnun? Það er kannski næsta mál.