Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 17:40:30 (7617)

2004-05-04 17:40:30# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[17:40]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Það væri kannski ekki svo vitlaust að huga að því að búa til eitthvað sem gæti heitið skipafriðunarsjóður eða sjávarminjasjóður, einmitt til að nota í þetta. Ég tel að það sé okkur í til mikilla vansa og alveg ótækt hve deig við höfum verið við að bjarga þessum minjum.

Tökum til að mynda Landhelgisgæsluna og varðskipin. Varðskipið Þór liggur í Reykjavíkurhöfn í mikilli niðurlægingu. Það er búið að mála það í gylltum lit og rífa innan úr því allar innréttingar, síðast þegar ég kom um borð. Það býr þar við mjög mikla niðurlægingu. Það ætti að vera búið að bjarga þessu skipi fyrir löngu, gera það að safni og hafa það til sýnis í Reykjavíkurhöfn til marks um glæsta sögu okkar í landhelgisstríðunum við Breta, stríðum sem lögðu grundvöllinn að því að við náðum yfirráðum yfir fiskimiðum okkar. Þetta hefur gersamlega verið vanrækt og er okkur til mikilla vansa.

Það væri líka mjög gaman ef við ættum eins og einn gamlan síðutogara sem við gætum haft til sýnis. Ferðamönnum þykir áhugavert að skoða þetta. Aðrar og minni fiskveiðiþjóðir en við, t.d. Bretar, hafa haft rænu á því að bjarga einhverju af togurum sínum og hafa þá til sýnis í dag, þetta eru opin söfn. Ég veit að nágrannar okkar, Færeyingar, hafa verið mjög duglegir við þetta. Þeir eru að gera upp kútter úti í Skotlandi, þessi litla þjóð, og eiga nokkra aðra til viðbótar sem þeir hafa gert upp og sigla á í dag, sjálfum sér og ferðamönnum til yndisauka. Norðmenn hafa verið mjög duglegir við þetta líka. Það er gaman að koma til Noregs, þar er mikið af gömlum skipum.

Enn og aftur, ef við lítum til Færeyja, úti í Færeyjum eru sem betur fer enn þá til tréskip sem voru smíðuð á Íslandi á sínum tíma og eru orðin mjög gömul. Ég man eftir tveimur sem nú eru í Klakksvík sem eflaust væri hægt að kaupa til landsins, til varðveislu á Íslandi okkur sjálfum til yndisauka og ánægju í framtíðinni og ekki bara fyrir okkur sem lifum í dag heldur líka fyrir komandi kynslóðir.