Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 18:38:51 (7624)

2004-05-04 18:38:51# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[18:38]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get ekki svarað mjög nákvæmlega til um kostnaðinn, þótt ég hafi verið í sambandi við menn sem hafa velt fyrir sér því hvernig best væri að standa að því að koma þessum bát í upprunalegt horf. Við erum samt ekki að tala um óskaplegar upphæðir vegna þess að skrokkurinn á bátnum er nokkuð góður. Við getum kannski gert ráð fyrir 15--20 millj. kr. eða einhverju slíku. Það er mjög viðráðanlegt og þá er verið að tala um að gera bátinn þannig úr garði að hann geti verið á floti og nýst til siglinga, t.d. á Hvalfirðinum eða í öðrum tilgangi, sem skólabátur o.s.frv.

Hvað varðar handverkið þá er ekki svo langt síðan tréskip voru smíðuð á Íslandi að ekki séu til nokkuð margir sem kunna eitthvað til þess enn þá. Það er vel hægt að bjarga þeirri þekkingu milli kynslóða ef eitthvað verður í því gert. Það eru a.m.k. til menn sem kunna þótt þeir hafi ekki sömu líkamskrafta og þurfti í skipasmíðar hér áður. Nú er hins vegar komin miklu betri tækni og þægilegri tæki til að vinna þessi verkefni þannig að jafnvel þeir gamlingjar gætu eitthvað gert.