Þróunarsjóður sjávarútvegsins

Þriðjudaginn 04. maí 2004, kl. 18:52:55 (7632)

2004-05-04 18:52:55# 130. lþ. 109.3 fundur 786. mál: #A Þróunarsjóður sjávarútvegsins# (afnám gjalda) frv. 51/2004, Frsm. minni hluta JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 130. lþ.

[18:52]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Jóhann Ársælsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum bara alls ekki gert kröfu um að þessar tölur ættu að liggja nákvæmlega fyrir. Við höfum bara ímyndað okkur að þegar menn væru komnir með 11 mánuði af 12 til þess að gera áætlun og hefðu allar tölur sem væru til staðar að þá gætu menn, a.m.k. flestir sem eitthvað kunna fyrir sér í reikningi og ef menn kunna það ekki er hægt að fá menn til að gera það, komist að niðurstöðu sem væri það nærri að menn gætu ákveðið hvernig ljúka ætti starfsemi annars vegar Þróunarsjóðsins og hins vegar veiðieftirlitsgjaldsins þannig að hún stemmdi við þær tölur sem menn ætluðu að fá í ríkissjóð. Eða þora menn ekki að segja það sem ég held að eigi og ætti að segja hér, að menn hafi komist að þeirri niðurstöðu að það ætti að styrkja útgerðina í landinu um 400 millj. á þessu ári í staðinn fyrir að leggja á hana veiðigjald?