Þjóðminjasafnið

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 15:01:04 (7674)

2004-05-05 15:01:04# 130. lþ. 110.5 fundur 670. mál: #A Þjóðminjasafnið# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi MÁ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. menntmrh. svörin. Allt var talið fram, vænti ég, sem fram þurfti að telja. Heildarkostnaðurinn er auðvitað ákaflega mikill við þetta. Ekki sé ég eftir því fé til Þjóðminjasafnsins en ég hygg, án þess að hafa þá tölu í höndunum, að þetta sé tvöföld eða þreföld sú upphæð sem upphaflega var gert ráð fyrir að veitt yrði til safnsins.

Saga þessa máls er auðvitað alveg ótrúleg, mikill hrakfallabálkur. Áætlanir um það eru allar úr skorðum, ákvarðanir um málið eru teknar hjá þjóðminjaráði og menntamálaráðherra að því er virðist út í bláinn. Hver yfirlýsingin um opnun safnsins liggur fyrir annarri dauðari frá ráðherrunum, forverum hæstv. núv. ráðherra, sem á hér litla sök eða enga, og undirbúningi öllum hefur verið ábótavant í þessu máli og ég skora á hæstv. menntmrh. að láta fara fram sérstaka rannsókn á fjárhagslegum og skipulagslegum þáttum þessarar viðgerðar. Ef hæstv. menntmrh. vill ekki gera það er kannski ástæða til að beina því til Ríkisendurskoðunar til þess að við getum lært af þessum hrakfallabálki og tryggt að hann endurtaki sig ekki.

Það er aukafjárveiting í haust. Það á að setja inn á fjáraukalögin 100 millj. kr. sem okkur er ætlað að samþykkja. Ég hygg að ég geri það með ánægju, legg áherslu á að kappi fylgi full forsjá í því efni. Það eru viðkvæmir munir sem við erum að fara með þarna og sú sýning sem á að opna í haust á líka að standa til frambúðar og ég ætla ekki að álasa ráðherra fyrir að hafa sagt 2. febrúar þegar spurt var um aukafjárveitinguna og henni neitað, en þá sagði hún, með leyfi forseta: ,,Það eru nægir fjármunir til til að geta opnað safnið með reisn.`` Ég ætla einungis að endurtaka að ég fagna því að við skulum loksins vera að opna safnið og ég hlakka til að hitta hæstv. menntmrh. í salarkynnum Þjóðminjasafns Íslands við Suðurgötu hinn 1. september nk.