Staðfesting aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 18:33:10 (7719)

2004-05-05 18:33:10# 130. lþ. 110.14 fundur 760. mál: #A staðfesting aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[18:33]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Hæstv. forseti. Hér er í fyrsta lagi spurt: ,,Hvers vegna hefur ráðherra ekki enn staðfest að fullu aðalskipulag Reykjavíkur 2001--2024?``

Í öðru lagi: ,,Hvenær hyggst ráðherra staðfesta aðalskipulag Reykjavíkur 2001--2024 að fullu?``

Því er til að svara að ráðuneytið lítur svo á að í fyrirspurninni sé vísað til fyrirvara sem settur var við staðfestingu umhvrh. á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001--2024 og á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins til sama tíma. Þann 20. desember 2002 var aðalskipulag Reykjavíkur 2001--2024 staðfest af umhvrh. með eftirfarandi fyrirvara. Virðulegur forseti, ég vitna í fyrirvarann:

,,Gerður er fyrirvari um samþykkt borgarstjórnar og samþykkt umhverfisráðherra varðandi þær framkvæmdir sem eru matsskyldar og úrskurður liggur ekki fyrir um. Uppbygging í Vatnsmýri og tímasetning hennar er háð flutningi á flugstarfsemi af svæðinu samanber kafla 3.2.1 í Greinargerð I -- Stefnumörkun. Óvissa er um legu Sundabrautar.``

Sams konar fyrirvari var settur varðandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins til sama tíma. Þannig hefur ráðherra nú þegar staðfest að fullu aðalskipulag Reykjavíkur 2001--2024 með framangreindum fyrirvörum samanber 19. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Sama dag og skipulagið var staðfest skipaði umhverfisráðherra nefnd um svæðisskipulag samkvæmt 6. mgr. 12. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, með síðari breytingum, til að fara yfir svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001--2024 og gera tillögur um landnotkun í Vatnsmýri á svæði 5 sem tekur til tímabilsins 2016--2024.

Í skipunarbréfi nefndarinnar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Hlutverk nefndarinnar er að fara yfir svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 2001--2024 sem staðfest er af umhverfisráðherra þann 20. desember 2002 og gera tillögur um landnotkun á Vatnsmýri á svæði 5 sem tekur til tímabilsins 2016--2024. Komist nefndin að sameiginlegri niðurstöðu skal hún gera tillögu um breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins á umræddu svæði til samræmis við framangreinda tillögu nefndarinnar.

Um kynningu, auglýsingu, samþykkt og staðfestingu á breytingu á svæðisskipulaginu skal farið samkvæmt 14. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. 13. gr. sömu laga, eftir því sem við á og skal nefndin gegna því hlutverki sem samvinnunefnd er falið samkvæmt framangreindum ákvæðum. Um gerð svæðisskipulags gilda að öðru leyti 9. gr. skipulags- og byggingarlaga og ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.

Leggi nefndin til breytingar á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins skal Reykjavíkurborg hlutast til um að lagðar verði til samsvarandi breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001--2024 sem staðfest var af umhverfisráðherra 20. desember 2002.``

Nefndinni var þannig ætlað að skoða sérstaklega landnotkun á því svæði sem Reykjavíkurflugvöllur stendur á í dag og Reykjavíkurborg áformar að nýta sem svæði fyrir blandaða byggð eftir 2016. Í nefndinni áttu sæti fulltrúi ráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og samgrn. Niðurstaða nefndarinnar, samanber skilabréf hennar dags. 1. desember 2003, var að þau sjónarmið samgönguyfirvalda að halda tveggja flugbrauta flugvelli í Vatnsmýrinni og áform Reykjavíkurborgar um aðra landnýtingu í Vatnsmýrinni færu ekki saman. Niðurstaða um tillögu til breytinga á skipulagi næðist því ekki í nefndinni. Nefndin taldi eigi að síður mikilvægt að borgaryfirvöld í Reykjavík og samgönguyfirvöld tækju upp formlegar viðræður um framhald málsins.

Þetta varð niðurstaðan. Menn náðu ekki saman þannig að vinnslu þessa máls er lokið í umhvrn. en breytist forsendur og komi upplýsingar fram um annan vilja þá færi þetta mál að sjálfsögðu í hefðbundna vinnslu.

Mér skilst, hæstv. forseti, að hæstv. samgrh. Sturla Böðvarsson og Reykjavíkurborg séu í viðræðum um þessi mál almennt. Þær viðræður tengjast flugvellinum og samgöngumiðstöð sem til umræðu hefur verið í nánd við Öskjuhlíðina, framtíðarsamgöngumiðstöð. Aðilar málsins eru því að ræða saman.