Staða og afkoma barnafjölskyldna

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:12:47 (7734)

2004-05-05 19:12:47# 130. lþ. 110.17 fundur 692. mál: #A staða og afkoma barnafjölskyldna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:12]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrirspyrjanda þær spurningar sem til mín hefur verið beint. Í fyrsta lagi: Hafa stjórnvöld kannað stöðu og afkomu barnafjölskyldna í samræmi við þingsályktun um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar sem samþykkt var á Alþingi 13. maí 1997?

Sem svar við þeirri spurningu hv. þingmanns er rétt að fram komi að gerð hefur verið könnun á vegum fjölskylduráðs í samræmi við ályktunina auk þess sem tekið var saman rit um áætlanir ráðuneytanna á sviði fjölskyldumála. Gerð var könnun á viðhorfum sveitarfélaganna til málefna fjölskyldunnar. Fyrsti hluti hennar fjallaði um fjölskyldustefnu almennt, annar um fjölskylduna og atvinnulífið og hvaða aðgerðum sveitarfélög hefðu beitt til að bæta hag fjölskyldunnar. Þriðji og síðasti hlutinn fjallar svo um það hvernig sveitarfélög standa að forvörnum og fræðslu í málefnum fjölskyldunnar. Þá var sveitarfélögum gefinn kostur á að gera grein fyrir aðgerðum sínum á þessu sviði ásamt því að koma á framfæri atriðum sem fjölskylduráð ætti að þeirra mati að leggja áherslu á að beita sér fyrir.

Það er mikilvægt að ráðuneytin sem eru stefnumótandi innan hvers sviðs, svo sem heilbrigðis, félagslegra réttinda, menntunar, húsnæðis, umhverfis og menningar, samræmi störf sín til að vinna þeirra móti hagstæð lífsskilyrði fyrir fjölskyldur landsins. Þess vegna er talið mikilvægt að fyrir hendi sé heildarsýn yfir þau málefni er lúta að fjölskyldunni og stjórnvöld eru að vinna að. Því ákvað fjölskylduráð að taka saman upplýsingar um málefni fjölskyldunnar sem mið í að marka opinbera fjölskyldustefnu.

Þetta var í fyrsta sinn, hæstv. forseti, sem áætlanir ráðuneytanna á sviði fjölskyldumála voru teknar saman í eitt rit. Niðurstöður umræddrar könnunar og samantektarinnar voru gefnar út árið 2001, á alþjóðlegum degi fjölskyldunnar þann 15. maí.

Hæstv. forseti. Fjölskylduráð hefur fjármuni til að fara í grunnrannsókn á högum fjölskyldunnar. Auk þess er nú unnið að undirbúningi á viðamiklu mælitæki sem mæla á lífsgæði fjölskyldunnar og hefur verið kallað fjölskylduvog. Er forhönnun þess langt komin. Það er Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri sem vinnur að þessu verkefni fyrir fjölskylduráð og gert er ráð fyrir að næsta grunnrannsókn á högum fjölskyldunnar muni nýtast í fjölskylduvoginni.

Hv. þm. spyr einnig um niðurstöður og helstu aðgerðir á grundvelli könnunar til að styrkja og bæta stöðu barnafjölskyldna. Þar sem bæði verkefnin voru viðamikil er ekki unnt að greina frá tæmandi niðurstöðum í stuttu máli mínu hér en ég mun nefna einstaka dæmi úr könnun á viðhorfum sveitarfélaganna. Þau hafa almennt áhuga á að setja sér fjölskyldustefnu en höfðu yfirleitt ekki hafið þá vinnu þegar þessi könnun var gerð. Skólamál voru langoftast nefnd sem jákvæðasti þátturinn í viðkomandi sveitarfélagi gagnvart fjölskyldunni en einnig sá málaflokkur sem var efstur á blaði hjá þeim, enda einsetning grunnskólanna í fullum gangi á þeim tíma. Atriði sem sveitarfélögin töldu að helst gætu bætt stöðu barnafjölskyldna í sveitarfélaginu voru skólamál, atvinnumál, menningarmál, tómstundamál, samgöngur, öryggis- og umhverfismál. Sveitarfélögin óskuðu m.a. eftir úrbótum varðandi lengra fæðingarorlof, aukinni ráðgjöf, fræðslu og stuðningi við fjölskyldur, lagfæringu á skattalöggjöf, styttri vinnutíma, stuðningi til framhaldsnáms, sveigjanlegum vinnutíma, auknum stuðningi við sveitarstjórnir og forvarnastarf í fíkniefnamálum.

Hæstv. forseti. Það er varla gerlegt að taka saman helstu niðurstöður úr samantekt fjölskylduráðs um málefni fjölskyldunnar enda var hún 50 blaðsíður að lengd en athygli er vakin á því að hana er hægt að nálgast á vefsetri félmrn.

Um aðgerðir má nefna að efst á blaði hjá sveitarfélögunum var lengra fæðingarorlof fyrir mæður og feður. Eins og þekkt er hefur ráðuneytið beitt sér fyrir umtalsverðum umbótum á því sviði og Alþingi hefur sem kunnugt er samþykkt breytingar á því sviði og fjallað um þær. Félmrn. hefur einnig sem kunnugt er hafið átak í sameiningu sveitarfélaga til að styrkja sveitarstjórnarstigið en það töldu sveitarstjórnarmenn mikilvægt, ekki síst út frá hagsmunum fjölskyldunnar. Þá hefur verið unnið að aukinni fræðslu fyrir foreldra, m.a. að undirbúningi að gerð vefsvæðis um fjölskylduna sem er gert ráð fyrir að takist að opna á þessu vori.

Fleira mætti nefna, hæstv. forseti, en að lokum tel ég rétt að upplýsa að í september komandi er ráðgert að halda ráðstefnu á vegum fjölskylduráðs einmitt fyrir sveitarfélögin og fulltrúa þeirra til að ræða þar um gerð fjölskyldustefnu sveitarfélaganna.