Hringamyndun

Miðvikudaginn 05. maí 2004, kl. 19:59:33 (7752)

2004-05-05 19:59:33# 130. lþ. 110.23 fundur 955. mál: #A hringamyndun# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 130. lþ.

[19:59]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Mér fannst afar athyglisvert að heyra það hjá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að hann hafi borið fram tillögu á flokksþingi Framsfl. um hringamyndanir og ef við tökum mið af því hvað gerst hefur síðan sú tillaga var borin fram og samþykkt verður eiginlega að líta svo á að flokkurinn hafi litið svo á að það ætti að herða á hringamynduninni. Tillagan sem hv. þm. flutti hafi einhvern veginn misskilist eða hún hafi snúist í öndverða átt því síðustu árin undir stjórn Framsfl., undir stjórn hæstv. viðskrh., hefur orðið alveg gríðarlegur samruni þannig að ég held að megi orða það sem hringamyndun. Framsfl. hefur því fylgt því að þjappa saman og koma á hringamyndun, síðast þegar Landsbankinn var afhentur einni fjölskyldu sem ræður orðið stórum hluta bæði á peningamarkaði og í atvinnulífinu.

Við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt fram frv. sem gerði slíkt ómögulegt og tæki fyrir þetta en Framsfl. virðist beita sér fyrir auknum hringamyndunum.