Þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 22:38:28 (7765)

2004-05-10 22:38:28# 130. lþ. 111.91 fundur 541#B þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[22:38]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Í þessum sal sagði hæstv. forsrh. að menn skyldu gefa sér nægan tíma til að vinna þetta mál, (Gripið fram í.) þingið fengi nægan tíma til að fara í gegnum málið, ræða það og taka þau sjónarmið til umræðu sem komið hafa fram o.s.frv.

Þetta mál var sent efh.- og viðskn. Ég held að það hafi einnig verið sent í menntmn. Eðlilegt hefði verið að hv. allshn. hefði fengið þær umsagnir til sín sem þar hafa verið unnar. Það eru engin rök til þess að flýta málinu. Nú er búið að færa gildistökudagsetninguna aftur til 2006 og það hefur komið fram nánast hjá öllum sem gefið hafa umsagnir um málið að það ætti ekki að afgreiðast með því hraði sem hér er verið að gera, það ætti ekki að flýta málinu. Menn eiga að gefa sér tíma til að fara yfir það, en þeim kröfum er hafnað.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að mér finnst málsmeðferðin á þessu máli vægast sagt undarleg, sérstaklega í ljósi þeirra ummæla sem voru viðhöfð í þessum þingsal um það hvernig þingið fengi að vinna málið. Hér er gengið á bak allra þeirra orða sem þar voru sögð um nægan tíma, næga skoðun o.s.frv. Sömu spurningarnar vakna upp og áður um það hver verði réttarstaða fólksins sem vinnur hjá því fyrirtæki sem lögin beinast sérstaklega að, og nánast eingöngu. Verður ríkið skaðabótaskylt? Er gengið á svig við stjórnarskrá með frv. eins og það lítur út eftir brtt.? Eru EES-reglurnar virtar o.s.frv.?

Öllum þessum spurningum þarf að svara, virðulegi forseti, og það er nánast forkastanlegt hvernig þetta mál ber allt að.