Þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 22:40:39 (7766)

2004-05-10 22:40:39# 130. lþ. 111.91 fundur 541#B þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd# (aths. um störf þingsins), ISG
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[22:40]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir:

Virðulegur forseti. Ágætu þingmenn. Ég þarf í sjálfu sér ekki að endurtaka það sem hér hefur verið sagt um vinnubrögðin í allshn. Alþingis og vinnubrögðin á hinu háa Alþingi. Ég vil bara segja að ég held að ég hafi aldrei áður orðið vitni að slíkum vinnubrögðum um mál sem varðar lýðræðið jafnmiklu og sem liggur jafnlítið á eins og í því máli sem hér um ræðir. Við sem höfum fylgst með vinnubrögðunum í málinu hljótum að lýsa ábyrgð á hendur þingmeirihlutanum öllum, á hendur báðum stjórnarflokkum, fyrir að standa að málum eins og hér hefur verið gert. Ég undanskil þar ekki Framsfl. þó að hann hafi í fjölmiðlum undanfarna daga reynt að hlaupa í eitthvert skjól af Sjálfstfl.

Ég vil líka segja að það er óskaplega dapurlegt að fylgjast með því að þrír nýir þingmenn sem sátu sitt fyrsta þing skuli standa þannig að málum. Ég trúi því ekki að þá langi til að standa þannig að málum, að þá langi til að vinna með þeim hætti sem hér var gert. Þeim er gert að vinna svona og þeir hafa ekki meiri burði en þetta og ekki meira bein í nefinu en svo að þeir láta sig hafa það. Þeir láta sig hafa það að ástunda hér vinnubrögð á sínum fyrsta þingvetri sem eru ósæmileg, virðulegur forseti. Þetta frv. á ekki að taka gildi fyrr en eftir tvö ár. Allir hafa talað um að við eigum að gefa okkur tíma, enginn telur að það liggi nokkurn skapaðan hlut á nema meiri hluti þingsins, einhverra hluta vegna sem ekki hefur fengist nein skýring á.

Það er búið að spyrja aftur og aftur hvers vegna liggi svona mikið á og það fæst ekkert svar, virðulegur forseti.