Þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 22:42:42 (7767)

2004-05-10 22:42:42# 130. lþ. 111.91 fundur 541#B þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd# (aths. um störf þingsins), KolH
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[22:42]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er satt að segja niðurlægjandi að þurfa að lúta því valdi sem beitt hefur verið við afgreiðslu þessa máls í þinginu og í afgreiðslu allshn. Satt að segja eru engin rök fyrir þessum flýti. Ég talaði um það við 1. umr. um málið að það væri eins og himinn og jörð væru að farast og ég spurði hvort húsið væri að brenna. Það hafa engin rök verið borin á borð fyrir okkur í allshn. sem rökstyðja þennan asa við málsmeðferðina. Það er satt að segja dapurlegt að þurfa að verða vitni að því hvernig meiri hlutinn hefur varið sinn vonda málstað í þessum vinnubrögðum.

Ég get líka tekið undir að lítið leggst fyrir unga frjálshyggjumenn sem þurfa að beygja sig undir það að vera þjónar valdhafanna sem í þessu máli hafa hreinlega hafnað lýðræðislegum vinnubrögðum og lýðræðislegri ákvarðanatöku. Ávirðingar málsmetandi umsagnaraðila í málinu hafa verið mjög alvarlegar. Þær hafa varðað stjórnarskipunarlög, reglur um Evrópurétt, mannréttindasáttmála Evrópu og minni hlutinn hefur ítrekað reynt að fá málsmeðferðinni þannig hagað að sómi væri að fyrir Alþingi. Því hefur verið hafnað, jafnvel í atkvæðagreiðslu, af meiri hluta allshn. að slíkur framgangsmáti gæti orðið að við gætum fengið allar þær umsagnir upp á borðið og lögfræðileg álit sem talið var þurfa.

Ég minni á það, virðulegur forseti, að ekki er langt síðan lög voru sett um fjölmiðla í Noregi sem borið hefur á góma í umræddri umræðu. Umræðan um þau lög áður en þau voru sett tók fjögur ár. Af hverju halda menn að það hafi verið? Af því að Norðmenn hafi svo gaman af að tala saman um ekki neitt? Nei, það var vegna þess að þar var unnið af skynsemi. Það er þannig sem þjóðin á kröfu á að Alþingi Íslendinga vinni.

Það er ekki unnið af skynsemi í þessu máli.