Þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd

Mánudaginn 10. maí 2004, kl. 22:47:20 (7770)

2004-05-10 22:47:20# 130. lþ. 111.91 fundur 541#B þinghaldið og afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps úr nefnd# (aths. um störf þingsins), MÁ
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 130. lþ.

[22:47]

Mörður Árnason:

Forseti. Það er ekki einungis efh.- og viðskn. sem hefur fengið málið til umfjöllunar frá allshn. heldur líka menntmn. Menntmn. hefur ekki hafið umfjöllun sína á málinu. Hún fundaði í dag og ræddi málið í kringum 15--20 mínútur og þá málsmeðferðina. Það var þokkalegt samkomulag um það í dag í þeirri nefnd að menntmn. legði áherslu á þann þátt málsins sem varðaði einmitt markmið frv. í orði kveðnu, fjölbreytni í fjölmiðlun, að menntmn. ræddi það hvernig frv. kæmi út fyrir fjölmiðlun í landinu og hvaða áhrif það hefði á mikilvægi fjölmiðlunar fyrir íslenska menningu og íslenska tungu. Lagður var fram listi af okkar hálfu, stjórnarandstæðinga, sem formaður nefndarinnar tók vinsamlega, um þá sem áttu að mæta hjá nefndinni. Þar voru félagsfræðingar, fjölmiðlafræðingar, reyndir blaðamenn, yfirmenn á fjölmiðlum og fulltrúar þeirra stétta sem starfa að menningarmálum og þar með að fjölmiðlun og á morgun átti að liggja fyrir hverjir yrðu kallaðir á fund nefndarinnar af þeim lista og hvernig málunum yrði framfylgt í nefndinni.

Það sem nú gerist er að það liggur fyrir nál. frá meiri hluta allshn. sem þó kallaði á álit menntmn. um störf sín þannig að allsherjarnefndarmeirihlutann virðist ekki varða um hvaða álit menntamálanefndarmenn hafi á þessu. Þá virðist ekki varða um hvaða áhrif frv. hefur á fjölbreytni í fjölmiðlun í landinu eða hvaða áhrif það hefur á íslenska menningu og íslenska tungu. Það er aumur stjórnarmeirihluti sem stendur á bak við þá menn í allshn., á bak við hina staðföstu, á bak við íhaldsdrengina þrjá, hina staðföstu hv. þm. sem sitja í allshn. og eru svo staðfastir að þeir hafa ekið út af í fyrstu beygju svo tekið sé til gagns orðalag frá því í haust. Þetta er óhæfa, forseti, og ég mótmæli þessu.