Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 15:04:46 (7828)

2004-05-11 15:04:46# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ítreka spurninguna: Hvað lá á? Mér finnst það ekki hafa komið fram í þessari umræðu. Ég er ekki einn um það. Mér hafa borist fjölmörg tölvuskeyti bara í morgun frá starfsfólki Norðurljósa. Hvað lá á?

Hv. þm. Bjarni Benediktsson talar um vá, lýðræðislega vá sem stafar af þessari samþjöppun. Ég hef ekki orðið var við hana. Að vísu hef ég lesið um hana. Ég hef lesið um hana í vefriti hæstv. dómsmrh. og heyrt af henni í orðum hæstv. forsrh. en ég vil fá nákvæmlega útskýrt hvaða vá um er að ræða. Ég óska eftir því að hv. þingmaður gefi hér greinargóð svör um það vegna þess að margir bíða eftir þeim svörum.