Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:08:12 (7846)

2004-05-11 16:08:12# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Nú hafa þau tíðindi gerst við upphaf þessarar 2. umr. um það mál sem hér er til umfjöllunar að okkur í menntmn. hefur borist fundarboð sem afhent var hér fyrir 10--15 mínútum en ber tímasetninguna 15.07 frá nefndadeild Alþingis. Í því fundarboði er gert ráð fyrir fundi klukkan 8.15 á morgun í menntmn. í Austurstræti 8--10. Þar eru tvö mál á dagskrá, síðara málið er önnur mál og fyrra málið er mál nr. 974, útvarpslög og samkeppnislög. Boðaðir eru þar nokkrir af þeim sem við stjórnarandstæðingar í nefndinni höfðum lagt til að þar yrðu kvaddir til. Það eru m.a. Herdís Þorgeirsdóttir, fjölmiðlalögfræðingur og fyrrverandi ritstjóri, Styrmir Gunnarsson ritstjóri, Gunnar Smári Egilsson ritstjóri, Magnús Ragnarsson, forstjóri hygg ég Íslenska sjónvarpsfélagsins, Sigurður G. Guðjónsson, kollega hans hjá Norðurljósum eða réttara sagt á Stöð 2, og Sigurður Líndal, prófessor emeritus í lögum við Háskóla Íslands.

Þetta eru tíðindi sem við höfum verið að leita eftir. Það á sem sé að halda fund í menntmn. og það er þeim mun athyglisverðara, forseti, vegna þess að í nefndaráliti meiri hluta allshn. kemur fram að í henni hefur ekki verið fjallað á neinn þann hátt sem sæmilegur er um þau mál sem við í menntmn. höfðum rætt um að taka fyrir, nefnilega áhrif frv. á fjölmiðlun í landinu sem atvinnugrein, á samkeppnisstöðu íslenskrar fjölmiðlunar gagnvart erlendri fjölmiðlun og áhrif þessa alls á íslenska menningu. Fjölmiðlun má líta á sem atvinnugrein sem er í nánum tengslum við ýmsar aðrar menningargreinar. Ef samlegðaráhrif, sem er nú vinsælt orð í þingsölum um aðra hluti, eru lögð saman má reikna með að á að giska 4--7 þúsund manns í landinu hafi beinan hag í fjölmiðlun og öðrum greinum af því hvað hér um ræðir.

Nefndir vinna hér ekki fyrir sjálfar sig, þó að nefndarstarfið geti vissulega verið gjöfult og áhugavert, heldur fyrir þingheim. Úr því að boðað hefur verið til fundar í menntmn., sem ég fagna eindregið, er eðlilegt að hætta þessari umræðu hér, slíta þessum fundi og fresta umræðunni þangað til menntmn. hefur starfað, sem ég hygg að sé kl. 10 á morgun.

Ég fer fram á það við forseta að hann annaðhvort geri það eða þá að hann hafi hér stutt fundarhlé til þess að bera sig saman við aðra forseta þingsins um þessa kröfu mína.