Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 16:14:30 (7848)

2004-05-11 16:14:30# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[16:14]

Össur Skarphéðinsson (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að þetta sé rýmileg ósk sem hér er fram komin frá tveimur hv. þm. sem eiga sæti í menntmn. Þeir hafa upplýst að þeir hafa báðir óskað ítrekað eftir því í nefndinni að kallað yrði á sérfræðinga til að hægt yrði að leggja mat á þá þætti frv. sem beinlínis varða málaflokkinn sem nefndinni er af hálfu þingsins falið að fjalla um.

Nú er það líka upplýst, frú forseti, að formaður nefndarinnar hafði bæði lofað því að kveðja til ákveðna sérfræðinga og jafnframt hitt að hann hefur nú tímasett þann fund.

Hvernig er hægt að boða til fundar í menntmn. sem beinlínis á að fjalla um þetta frv., væntanlega þá til þess að gera þingmönnum kleift að skoða út í hörgul álitaefni sem frv. varða, en eigi að síður að halda áfram þessari umræðu? Mér finnst það mjög umhendis, frú forseti.

Ég vil svo bæta því að ég á sæti í hv. efh.- og viðskn. og eins og fram hefur komið hefur sú nefnd ekki lokið störfum. Allshn., sem hv. þm. Bjarni Benediktsson veitir forstöðu, fól efh.- og viðskn. að senda álit sitt á tilteknum þáttum frv. til allshn. Efh.- og viðskn. hefur eftir föngum reynt að sinna þeirri skyldu sinni og fengið til sín fjölmarga fulltrúa.

Ég ætla ekki, frú forseti, að fara í efnisumræðu en eitt af þeim álitaefnum sem við ræddum var einmitt hvort unnt væri að ætla að bankar treystu sér, ef frv. yrði að lögum, til að lána fjölmiðlafyrirtækjum rekstrarfé, hafa þau í viðskiptum. Ég spurði fulltrúa Samkeppnisstofnunar sem kom til fundar við nefndina, hvort hann teldi svo vera (Gripið fram í: Er þetta um fundarstjórn forseta?) og hann svaraði að hann gæti ekki upplýst það.

Hér er kallað fram af einum hv. þm. hvort þetta sé um fundarstjórn forseta. Svarið er já. (Gripið fram í: Viltu útskýra það.) Ég er ekki í efnisumræðu, frú forseti, heldur er ég að benda á að það er mikilvægt álitaefni sem varðar þetta mál sem ekki hefur fengist upplýst. Áður en hv. þm. kallaði fram í ætlaði ég að fara að botna setningu mína sem er svona: Það liggur fyrir, samkvæmt ákvörðun nefndarinnar, að á morgun mun efh.- og viðskn. einmitt fjalla um þetta tiltekna atriði. Það skiptir miklu máli að fá botn í það til þess að geta haldið hér áfram vitrænni umræðu. Þess vegna óska ég eftir því að farið verði að tilmælum þeirra tveggja hv. þm. sem hér hafa talað, a.m.k. finnst mér að frú forseti ætti að fresta fundi og kveðja til fundar þingflokksformenn til að ráðslaga um þetta.

Svo verð ég að segja að ég veit að hæstv. forsrh. hefur lögmæt forföll, en hvar er hæstv. menntmrh.? Sér hún ekki einu sinni tilefni til að sitja hér í salnum þegar verið er að ræða um þetta mikilvæga mál?