Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:24:05 (7863)

2004-05-11 18:24:05# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigurjóni Þórðarsyni fyrir prýðilegt og greinargott svar þar sem hann telur málið til þess bært að forseti Íslands beiti synjunarvaldi sínu, verði það að lögum.

En það er annað sem mig langaði að inna hann eftir og kom fram í máli Skarphéðins Bergs Steinarssonar, stjórnarformanns Íslenska útvarpsfélagsins, þar sem hann fullyrðir að þetta mál sé sérsniðið að Íslenska sjónvarpsfélaginu og eigendum Skjás 1. Og um leið og það sé sértækt til að leysa upp Norðurljós og brjóta það fyrirtæki á bak aftur og þvinga það til að leysa sumar deildir sínar upp sé það sérsniðið að því að Íslenska sjónvarpsfélagið geti keypt Íslenska útvarpsfélagið ef og þegar að því kemur að stjórnvöld hafi neytt Norðurljós til að brjóta einingar sínar upp. Rökstuðningur Skarphéðins Bergs fyrir því var að í frv. væri tekin inn reglan um 5% eignarhald markaðsráðandi aðila eða þeirra sem væru með yfir 2 milljarða kr. veltu. Svo athyglisvert sem það væri, sagði Skarphéðinn Berg, ætti Íslandsbanki einmitt tæp 5% í Skjá 1 eða Íslenska sjónvarpsfélaginu og IKEA, sem ætti eitthvað á bilinu 20% í Íslenska sjónvarpsfélaginu, væri með veltu á Íslandi upp á 1,8 milljarða. Svo miklar og rammar væru þær tilviljanir sem hér væri um að ræða og þar með væri frv. sérsniðið að því að eigendur Skjás 1 gætu keypt upp leifarnar af Norðurljósum þegar þau væru hætt að loga og íslensk stjórnvöld hefðu brotið þau á bak aftur með þessum ólögum.

Því langaði mig að spyrja hv. þm. Sigurjón Þórðarson um viðhorf hans til þessara fullyrðinga Skarphéðins Bergs Steinarssonar sem fram komu í fréttum í dag þar sem þingmaðurinn hefur á síðustu dögum unnið ötullega í nefndinni og er því öllum hnútum vel kunnugur um tilhögun mála þar.