Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:30:05 (7866)

2004-05-11 18:30:05# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:30]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Yfirlýst markmið frv. er fjölbreytni. En nú höfum við fengið bunka af umsögnum til nefndarinnar sem segja að frv. geti snúist upp í andhverfu sína. Það ætti hv. þm. að íhuga. Hann ætti einnig að íhuga hvað gerist ef við fáum á okkur dóm eða álit EFTA-dómstólsins um að þetta standist ekki Evrópureglur. Hvað liggur á? Hvaða vá er fyrir dyrum? Er ekki rétt að hann greini frá því? Væri ekki nær að fara rækilega yfir málið?

Næstum allir málsmetandi lögfræðingar hafa slegið varnagla við því hvort þetta frv. standist Evrópureglur. Þeir hafa efasemdir um að það standist stjórnarskána. Hefði ekki verið rétt að taka a.m.k. hálfan mánuð í að skoða málið rækilega? Þótt ég trúi því að hv. þm. hafi unnið af góðum hug, að brtt. væru til þess gerðar að það stæðist reglur, hefði þá ekki verið rétt að senda þær aftur út til umsagnar? Við sendum þetta frv. til umsagnar í nokkra daga. Okkur hefði ekki munað um að leyfa því að vera til skoðunar í nokkra daga í viðbót.