Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:54:28 (7877)

2004-05-11 18:54:28# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SigurjÞ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:54]

Sigurjón Þórðarson (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég lýsi yfir furðu á því að þessari ósk hafi verið hafnað, og sérstaklega að menn bíði ekki eftir áliti menntmn. Ég hefði talið eðlilegasta farveg málsins að málið hefði verið í menntmn. en ekki verið sett á forræði allshn. Þess vegna er svo mikilvægt að bíða eftir áliti menntmn. Ég tel það vera mjög mikilvægt. Ég sat umræddan fund með hæstv. forseta þingsins og mér fundust rök meiri hlutans vera veigalítil í málinu.

Önnur rök skipta ekki minna máli hvað það varðar að við eigum að gefa okkur lengri tíma. Komið hefur fram í umræðunni að brtt. sem við erum að fjalla um í 2. umr. hafa verið sagðar mjög veigamiklar og þess vegna á að gefast ráðrúm til að kynna sér þær í frekari mæli en gert er ráð fyrir eins og þinghaldinu er háttað nú. Ef við ætlum að setja góð lög er lágmark að bíða eftir áliti menntmn. sem ætti samkvæmt venju að hafa forræði í málinu.