Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 18:56:19 (7878)

2004-05-11 18:56:19# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[18:56]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Það er ekki annað að gera en að sætta sig við þá niðurstöðu sem enn er í málinu. Vegna forsögunnar og til þess að hjálpa til við afgreiðsluna hér á eftir vil ég taka fram að það er rétt hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni að í lok 1. umr. fór fram sérstök lítil umræða um það hvert ætti að vísa þessu máli. Hana hóf hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Mál sem fjallar að 9/10 eða 95/100 um útvarpslög og um menningar- og menntamál, sem eru á sviði menntmn. sem fjölmiðlarnir vissulega eru, þó að þetta mál hafi marga aðra útúrdúra og hliðar, á auðvitað heima í menntmn.

Í 23. gr. þingskapa segir, með leyfi forseta: ,,Vísa skal frumvörpum, þingsályktunartillögum og skýrslum til nefnda eftir efni þeirra og hafa um það hliðsjón af skiptingu málefna í Stjórnarráðinu.`` --- Þetta mál er á valdsviði menntmrh. þó að forsrh. hafi svo flutt það eins og frægt er og mikið hefur verið rætt.

Síðan segir áfram í þingsköpunum, með leyfi forseta:

,,Til allsherjarnefndar skal vísa dómsmálum, kirkjumálum, byggðamálum og öðrum þeim málum sem þingið ákveður.`` --- Það er vissulega rétt að þingið ákvað í þetta sinn að gera þetta.

Um slík tilvik að nefnd vísi máli til umsagnar til annarrar nefndar á sérsviði getur ekki í þeim þingsköpum sem við störfum nú eftir --- kannski er ástæða til að athuga það í næsta sinn --- heldur er einungis gert ráð fyrir því eftir því sem ég kem auga á að þingnefnd vísi máli í heilu lagi til annarrar nefndar vegna þess að það eigi frekar heima á hennar sviði. Þó segir þetta og það er mjög mikilvægt í lok 1. mgr. 23. gr.: ,,Vísa má máli til nefndar á hverju stigi þess. Sé það gert áður en umræðu er lokið þá skal henni frestað.``

Alþingi samþykkti þessi þingsköp árið 1993 og þau eiga sér stoð aftur í tímann, allt aftur á miðja þarsíðustu öld, og ég skil þessa grein svo að á meðan nefnd vinnur að máli skuli ekki ræða hana í Alþingi þar sem þingheimur situr allur. Vinnan í nefndinni er nauðsynlegur undanfari umræðunnar í Alþingi og þá gildir einu hvort það er í aðalnefndinni eða þeim nefndum sem aðalnefndin, í þessu tilviki allshn., hefur vísað málinu til, í þessu tilviki menntmn. og efh.- og viðskn. Þessi skilaboð óska ég eftir að forseti sá sem nú situr eða sá sem kjörinn var til þess embættis hafi í huga á fundinum sem haldinn verður á eftir.