Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 20:57:40 (7881)

2004-05-11 20:57:40# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[20:57]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það verður eiginlega að gera þá lágmarkskröfu að það sem sagt er sé svona sæmilega rökfært og sæmilega rökhelt.

Í sjálfu sér getur hæstv. menntamálaráðherra gefið málflutningi mínum hvert það nafn sem hún kýs. Hún getur kallað það heift. Hún getur kallað það reiði. Hún getur kallað það bull. Það skiptir mig bara engu máli. Það breytir engu um það að ég fór hér lið fyrir lið yfir þau atriði í þessu frumvarpi sem stangast á við íslensk lög, við stjórnarskrá og grundvallarreglur íslenska ríkisins, við Evrópuréttinn. Ég fór lið fyrir lið yfir það. Ég fór hér líka lið fyrir lið yfir það hvaða pólitísku sjónarmið lægju að baki.

Það má ráðherrann kalla heift. Hún má kalla það reiði. Hún má kalla það bull. Mér er nokk sama. Þetta voru málefnaleg rök, pólitísk rök sem hér voru færð fram af minni hálfu og ráðherrann hefði auðvitað átt að reyna að svara þeim í einhverju.

Ráðherrann heldur því fram að verið sé að brengla lýðræðisumræðuna með málflutningi stjórnarandstöðunnar og að stjórnarandstaðan sé að forðast hina efnislegu umræðu. Við erum að biðja um efnislega umræðu. Við erum að biðja um lýðræðislega umræðu. Við erum að biðja um það að þetta mál fái þann tíma til umræðunnar sem það þarf og meðhöndlunar í nefndum. Hvernig er hægt að snúa hlutunum svona á haus með þessum hætti, virðulegur forseti.

Hvernig er líka hægt að snúa málunum þannig á haus að segja að við viljum allt í einu ekki almennar lýðræðislegar leikreglur? Það er nákvæmlega það sem við viljum. En þetta frumvarp er leysifrumvarp. Þetta er sértækt frumvarp og það er það sem okkar málefnalega gagnrýni byggir á, virðulegur forseti.