Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 20:59:37 (7882)

2004-05-11 20:59:37# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[20:59]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla strax að svara því sem að mér var beint í ræðu hv. þm. varðandi þjóðréttarskylduna. Ég vil vísa í skýrsluna með leyfi forseta. Þar stendur:

,,Á íslenska ríkinu hvílir því sú þjóðréttarskylda að leita leiða til að tryggja fjölbreytni í fjölmiðlun.``

Það vill svo til að í millitíðinni hefur formaður nefndarinnar verið kosinn dómari við Mannréttindadómstól Evrópu. (Gripið fram í.) Af hverju mætti ég þá ekki fá að vísa akkúrat í þessa skýrslu?

Frú forseti. Ég sakna þess að fá afstöðu Samfylkingarinnar til þess að setja lög um eignarhald fjölmiðla. Af hverju má ekki setja lög um eignarhald fjölmiðla? Í rauninni þarf ég ekki lengur að spyrja því ég man hvað þingmenn sögðu við 1. umræðu. Þeir vilja ekki koma í veg fyrir að auðhringar eignist fjölmiðlana. Þeir hafa sagt, Samfylkingin hefur sagt: Auðhringar mega eiga allt landið og þar með líka fjölmiðlana. Þeir mega líka eiga fjölmiðlana sem eiga að veita viðskiptalífinu aðhald í sinni efnislegu umræðu. (Gripið fram í: Er ráðherra ...?) En þessu vilja samfylkingarmenn ekki una. Þeir vilja óbreytt ástand.