Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 22:38:19 (7895)

2004-05-11 22:38:19# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[22:38]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur margoft komið fram að aðrar reglur og önnur sjónarmið gilda um Ríkisútvarpið. Ekki bara hér heldur alls staðar annars staðar í hinum vestræna heimi gilda önnur sjónarmið um ríkisútvörp. Það er margviðurkennt og hefur margoft verið undirstrikað á hinum og þessum þjóðþingum víðs vegar í hinum vestræna heimi.

Ég vil þó fagna því að hv. þm. hefur lagt áherslu á ákveðna hluti í máli sínu. Hann hefur talað um óæskilega samþjöppun eignarhalds á fjölmiðalmarkaði. Hann hefur þó haft þann dug að koma hingað og segja að um óæskilega samþjöppun væri að ræða. Það er meira en meðal annars þingmenn Samfylkingarinnar hafa gert sem vilja algjörlega óbreytt ástand, vilja að heilu viðskiptablokkirnar eigi fjölmiðlana, vilja ekki að neitt verði gert á Íslandi, í þessu litla samfélagi okkar, sem þarf á virku aðhaldi og eftirliti frá fjölmiðlum að halda. En ég virði það hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þó til vorkunnar að hann sér þessa vá sem er í íslensku samfélagi.