Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 22:40:28 (7897)

2004-05-11 22:40:28# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[22:40]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nú orðið alllangt síðan ég bað um andsvar til þess að ræða tiltekið atriði sem kom upp í máli hv. þm. Ég ætla áður en ég geri það að segja að það er allt að verða svo skemmtilega öfugsnúið í þessu máli því hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan, og mér fannst það eiginlega vera svona með tilvísun til fjölmiðlamarkaðarins, að líkaminn hefði tilhneigingu til þess að lækna sig sjálfur bara ef hann fengi að vera í friði. Einhvern tímann hefðu nú frjálshyggjumennirnir sagt að þetta ætti nú við um markaðinn, að hann leitaði í ákveðið jafnvægi ef hann fengi að vera í friði fyrir stjórnmálamönnunum. Allt er þetta því einhvern veginn orðið dálítið öfugsnúið hér í umræðunni og rökin farin að færast svolítið til í henni.

Ég kom hér upp út af umræðunni um almenn og sértæk lög. Ég ætla að halda mig við það heygarðshorn að lög eigi að vera almenn ef þess er einhver kostur. Það er auðvitað aldrei neitt fortakslaust í þeim efnum. En ég held að ekki dugi okkur að vísa til laga frá árinu 1900 sem var ætlað ná til tiltekins fyrirtækis því að eftir árið 1900 hefur verið sett mikið af almennri löggjöf sem einmitt er ætlað að ná til tiltekinna aðstæðna sem geta skapast á markaði, t.d. (Forseti hringir.) samkeppnislögin. Ég held að slík lög eigi almennt að duga okkur og að við eigum ekki að þurfa að grípa til sértækrar lagasetningar, þó ekkert sé fortakslaust auðvitað.