Útvarpslög og samkeppnislög

Þriðjudaginn 11. maí 2004, kl. 22:52:49 (7907)

2004-05-11 22:52:49# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[22:52]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir svarið. Það hefur komið glöggt fram í umræðunni í kvöld og ekki síst í máli hans að hér væri um að ræða lagagjörning sem lyti sérstaklega að því að knésetja eitt einstakt fyrirtæki í landinu, Norðurljós, kippa fótunum undan tilveru og rekstrargrundvelli þess fyrirtækis og það var í því ljósi sem stjórnmálafræðingurinn lét þau orð falla í fréttum í kvöld að frv. snerti þau grundvallargildi stjórnskipunar okkar sem lytu að atvinnufrelsi, eignarfrelsi og tjáningarfrelsi. Í því ljósi varpaði ég þeirri spurningu til hv. þm. hvort hann teldi það ekki einnar messu virði að ræða það hvort þingheimur ætti að skora á forseta lýðveldisins að beita synjunarvaldi sínu og vísa þessum væntanlegu ólögum fyrir dóm kjósenda. Það var í því ljósi sem ég bar spurninguna upp þar sem þingmaðurinn er meðal þingreyndari manna þegar kemur að slíkum álitaefnum.