2004-05-12 00:01:32# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:01]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég tek undir ósköp sanngjarnar og í raun hógværar óskir um að það verði eitthvað upplýst um þinghaldið, hvað sé fyrirhugað. Nú er klukkan tólf á miðnætti og nýr drottins dagur að renna upp og menn búnir að vera að störfum síðan átta eða hálfníu í morgun á nefndarfundum og síðan samfelldum þingfundum eða við önnur störf. Svo háttar til í þinghaldinu að það liggur engin starfsáætlun fyrir og flest sem bendir til þess að þingið eigi alllangan tíma eftir við störf á þessu vori eða inn í sumarið. Það er því ekki hægt að segja að menn séu í pressu af því að þinglok séu fyrirsjáanleg innan fárra sólarhringa, öðru nær. Menn hafa greinilega sett sig í þann gír að hér sé nógur tími. Gott og vel, þá vinna menn í samræmi við það en þá er líka eðlilegt að þinghaldið sé með nokkuð reglubundnum eða manneskjulegum hætti þannig að menn fái lágmarkshvíldartíma og annað í þeim dúr. Út af fyrir sig er sá sem hér talar ekkert óvanur næturfundum þó að þeir gerist sjaldgæfari í seinni tíð og það er ekkert að því í sjálfu sér að menn ræði saman eina og eina næturstund en það þjónar ekki í sjálfu sér tilgangi nema það sé til þess að ná fram einhverjum markmiðum vegna þess að menn hafi sett sér takmörk í sambandi við afgreiðslu mála eða í þinghaldinu.

Í þessu máli er náttúrlega ekki mikið samkomulag eins og ég geri ráð fyrir að forseta sé ljóst og meðan við mætum engri viðleitni af hálfu forustu stjórnarliðsins til þess að skipuleggja þingstörfin eða sýna einhverja sanngirni í þeim er hætt við því, reynslan sýnir það, virðulegur forseti, að þetta gangi allt svona frekar stirðlega þannig að stundum fer tíminn til lítils og það að þrjóskast áfram í ósamkomulagi með fundarhöld fram á nótt skilar litlum tilgangi.

Ef forseti vildi vera svo vinsamlegur og upplýsa hve margir eru á mælendaskrá væri fróðlegt að heyra það. Ég hygg að það sé líklegt að sú tala sé þannig að það sé alveg morgunljóst að umræða um málið muni verða hér einnig á morgun og þá er auðvitað langeðlilegast að gefinn sé skikkanlegur lágmarkshvíldartími milli daga. Ég tek því eindregið undir að það sé réttmæt og sanngjörn krafa og að við eigum fulla heimtingu á því að verða upplýst um það núna á næstunni hvað til standi með fundarhaldið í nótt og mér sýndist það vera orðið ágætisdagsverk að við yrðum hér fram um tvöleytið. En að vísu datt mér það í hug, af því að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson var hér síðastur í ræðustóli, að það mætti náttúrlega hugsa sér að reyna að fara að standa hér vaktir ef ríkisstjórninni er alvara með að funda dag og nótt þangað til yfir lýkur.

(Forseti (BÁ): Um það bil 20 hv. þm. eru á mælendaskrá.)