2004-05-12 00:08:30# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KLM (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:08]

Kristján L. Möller (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég kem aðeins til að taka undir það sem aðrir þingmenn sem hér hafa komið hafa sagt og gert athugasemdir við um störf þingsins. Það er svo langt liðið á að ég man ekki hvort það var í morgun eða gærkvöldi sem ég spurði hvort það gæti verið að umræðan væri að þróast á þann veg að ekki neinir hv. stjórnarþingmenn mundu sitja í salnum og hlusta. Ef ég man rétt held ég að einn stjórnarþingmaður sé búinn að tala frá því klukkan tvö í dag og það var hv. þm. Bjarni Benediktsson, talsmaður meiri hluta allshn., sem er að reyna að tala fyrir þessu máli. (PHB: Hjálmar.) Ef ég man rétt, hv. þm. Pétur Blöndal, sem grípur hér fram í og nefnir Hjálmar, þá heyrðist mér að Hjálmar Árnason hefði tekið sig út af mælendaskrá eða réttara sagt fært sig, þannig að sú spá mín sem þar var hefur þá ræst, sá hluti, og ég hygg að spá mín frá því í gær eigi öll eftir að rætast um málsmeðferðina og hvernig hún á að fara fram með handhafa forsetavalds o.s.frv.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að ég tel fullkomlega óeðlilegt að haldið verði áfram langt fram á nótt vegna þess að nefndarfundir eru boðaðir í fyrramálið kl. 8.15. Það hefur komið fram að 19 eða 20 þingmenn eru á mælendaskrá og vitað er að það á eftir að bætast við hana. Ef hv. stjórnarþingmenn ætla að haga þingstörfum sínum í nótt með því að sofa heima eða vera ekki viðstaddir er það lágmarkskurteisi að leyfa okkur að hvílast aðeins áður en við komum til funda þannig að við mætum þá jafnsofin eða illa sofin til leiks eftir því hvernig á það er litið.

Það er rétt, virðulegi forseti, að talað var um að hæstv. forseti þingsins væri búinn að boða formenn þingflokka á fund klukkan tólf. Því vil ég mælast til þess núna við þann sem situr í forsetastóli að gert verði hlé á þessum fundi á meðan fundur verður haldinn með forseta þingsins og vil formlega óska eftir því þannig að okkur gefist tími til að fara niður í forsetaherbergi til að funda með honum á þeim fundi sem hann bíður eftir að við komum til núna.

(Forseti (BÁ): Forseti telur ekkert því til fyrirstöðu að umræðan haldi áfram þó að hv. formenn þingflokka ræði við forseta þingsins.)