2004-05-12 00:11:03# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:11]

Jóhann Ársælsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Þessi fundur hófst klukkan hálfellefu í morgun en síðan var gert hlé á honum og hann hófst aftur klukkan tvö í dag. Sá dagur er 11. maí og það var nú vertíðarlokadagur á sínum tíma. Það er eiginlega merkilegt hvað þessar dagsetningar eru miklir örlagadagar í því máli sem við erum að fást við því allt byrjaði þetta 11. febrúar árið 2003, á bolludaginn. Mér finnst einhvern veginn að það sé ekki okkur til sóma hvernig við vinnum hér. Það er nógur tími fram undan og mér skilst að frændur vorir Færeyingar eigi máltæki sem segir að það komi alltaf meiri tími og sá tími kemur auðvitað og við getum notað hann vel til að ræða þetta mál fram á vorið og svo kemur sumarið. Þingmenn hafa lýst því yfir hver um annan þveran að þeir séu tilbúnir að sitja hér á Alþingi eins og fara vill, miklu lengur en menn hafa stundað fram að þessu. Ég sé því ekki hvaða offors er í því sem hér er stundað að halda áfram ræðuhöldum langt fram á nætur eins og virðist stefna í.

Mér finnst það líka óboðlegt að hæstv. forseti þingsins skuli ekki geta haft þær reiður á þinghaldinu að hann geti ákveðið sig þegar fyrir liggur að það eru 20 á mælendaskránni, hvenær eigi að ljúka fundi í dag. Mér finnst að það geti varla verið óskaplega flókið að taka þá ákvörðun sem hæstv. forseti á auðvitað að taka því það er hann sem skipuleggur þinghaldið. Ég sé ekki að það þurfi neina samninga um það. Hæstv. forseti á að vera fullfær um að meta það út frá því hvað menn hafa verið að gera, hve lengi fundir hafa staðið og hvernig mál standa. Það er auðséð að umræðunni mun ekki ljúka á þeirri nóttu sem hafin er. Tuttugu eru á mælendaskrá og ég hef ekki fylgst með því en ætli það séu búnir að tala meira en fimm þingmenn eða eitthvað svoleiðis í dag, þannig að menn geta aldeilis áttað sig á því að fundur mun standa langt fram á næsta dag ef klára á mælendaskrána. Mér finnst að hæstv. forseti Alþingis eigi að meta þetta sjálfur og ákveða að hætta fundi þannig að ekki sé verið að láta menn standa hér fram á nætur þegar þeir eiga meira að segja að mæta á nefndarfundum í fyrramálið.