2004-05-12 00:17:22# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, JóhS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:17]

Jóhanna Sigurðardóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ekki nokkurt vit í stjórn þingsins. Ég vil hvetja hæstv. forseta til að verða við sanngjörnum og eðlilegum óskum sem fram hafa komið um að þessum fundi verði frestað meðan forseti þingsins og formenn þingflokka ráðslaga um hvernig þinghaldinu á að vinda fram. Það vill svo til að í fyrramálið klukkan 8.15 verða fundir í þeim tveimur nefndum sem fjalla um málið sem hér er á dagskrá. Það mundi sannarlega greiða fyrir þingstörfunum ef þessum fundi yrði lokið fljótlega þannig að menn geti lagst til hvíldar og búið sig undir þá fundi sem verða haldnir snemma í fyrramálið. Ég var á fundi snemma í morgun og á að vera á öðrum fundi sem boðaður er í fyrramálið klukkan hálfníu. Ég set fram þá kröfu að það verði a.m.k. reynt að virða lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Þar segir í 53. gr., með leyfi forseta:

,,Vinnutíma skal haga þannig að á hverjum 24 klukkustundum, reiknað frá byrjun vinnudags, fái starfsmenn að minnsta kosti 11 klukkustunda samfellda hvíld.

Með samkomulagi ... er heimilt að stytta samfelldan hvíldartíma í allt að átta klukkustundir ef eðli starfs eða sérstakir atvinnuhættir gera frávik nauðsynleg.``

Hér hefur komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að við göngum lengra en lög heimila. Við erum að bjóða fram að fá einungis fimm til sex tíma hvíld áður en við mætum til nefndastarfa.

Hér er verið að hespa mál í gegn, herra forseti, og krefja þingmenn um að vinna mun lengur en lögin um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustað segja til um. Það er gert til að ná í gegn lögum sem eiga að taka gildi eftir tvö ár, herra forseti. Hvers slags vitleysa er þetta orðin? Svo er manni sagt að önnur mikilvæg mál verði ekki tekin á dagskrá fyrr en búið er að gera þessi mál að lögum. Það er auðvitað ekkert vit í þessum vinnubrögðum.

Ég vil vekja athygli forseta á því að hér hafa einungis sjö þingmenn talað þótt fundur hafi staðið í tíu tíma. Það eru 19 þingmenn á mælendaskrá. Þó að við höldum stanslaust áfram án þess að fá nokkra hvíld mun þessum fundi örugglega ekki ljúka fyrr en aðra nótt. Það er nauðsynlegt að þingmenn fái eðlilega hvíld.

Ég mótmæli því að löggjafarsamkundan, sem setur þjóðinni og landsmönnum lög, skuli standa í því að brjóta mikilvæga löggjöf um aðbúnað, hollustu og öryggi á vinnustöðum. Ég fer fram á það, herra forseti, að orðið verði við þessum sanngjörnu óskum. Ég minni á að það tók fjóra daga að ræða lagafrv. um gagnagrunn á heilbrigðissviði í 2. umr. árið 1998. Það tók 50 klukkustundir og ég býst ekki við því að þessi umræða taki styttri tíma.