2004-05-12 00:20:41# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:20]

Magnús Þór Hafsteinsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég verð að hefja mál mitt á að lýsa því yfir að mér þykir sem fundir á hinu háa Alþingi og fundarstjórn forseta verði æ farsakenndari með hverjum deginum sem líður. Ég minni á, virðulegi forseti, að í gærkvöldi fór fram afskaplega undarleg sýning þar sem þingheimur fékk loks að vita, eftir mikið japl, jaml og fuður, að málið sem við höfum verið að ræða í allan dag, frá því þingfundur hófst klukkan hálfellefu í morgun, yrði tekið fyrir í dag.

Í dag hafa hellst yfir okkur þingmenn, sem ekki höfum starfað í þeim nefndum sem hafa haft þetta mál til umfjöllunar, haugar af alls kyns pappírum sem okkur hefur verið gert að fara yfir í dag. Við höfum verið að undirbúa ræður okkar.

Stjórnarandstaðan hefur, þrátt fyrir að henni hafi verið stillt upp við vegg í þessu máli og stjórnarliðar ákveðið að keyra þetta mál í gegnum þingið af miklu offorsi, hvorki æmt né skræmt. Hún hefur tekið þátt í leiknum af alefli og hvergi látið bilbug á sér finna. Sú fróma ósk að þingmenn fái hvíld yfir blánóttina til að geta tekist á við erfiðan þingdag á morgun, til að greiða fyrir störfum þingsins, er alls ekki ósanngjörn. Sú gagnrýni sem hér hefur komið fram á fundarstjórn forseta er fyllilega réttmæt. Hún á fullan rétt á sér.

Eins og ég sagði áðan verður þetta æ farsakenndara. Ég held að vinnubrögðin sem hafa tíðkast á hinu háa Alþingi undanfarna viku séu síst til þess fallin, herra forseti, að auka virðingu landsmanna fyrir löggjafanum. Slík vinnubrögð verða ekki til að auka virðingu landsmanna fyrir framkvæmdarvaldinu og því miður held ég að þau séu farin að rýra ansi mikið álit landsmanna á löggjafanum og á hinu háa Alþingi.

Ég reikna með því að margir séu nú að horfa á sjónvarpið og fylgjast með þeirri furðulegu sýningu sem á sér stað, þar sem hver uppákoman rekur aðra, dag eftir dag. Ég fyrir mitt leyti verð að segja, sem nýr þingmaður sem er að ljúka sínum fyrsta vetri á þingi, að á vissan hátt er þetta mikil upplifun. Hver dagur ber í skauti sér eitthvað nýtt og óvænt sem maður hefur aldrei orðið vitni að fyrr og hafði aldrei ímyndað sér að maður ætti eftir að lenda í. Þetta er á vissan hátt mikil lífsreynsla og dýrmæt lífsreynsla.

Ég segi hins vegar enn og aftur að ég tel þetta alls ekki til þess fallið að vekja virðingu þjóðarinnar fyrir hinu háa Alþingi. Ég skil ekki að ekki skuli hægt að leyfa þingmönnum að fá a.m.k. lágmarkshvíld.