2004-05-12 00:26:51# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÁ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:26]

Mörður Árnason (um fundarstjórn):

Forseti. Við höfum hér nokkrum sinnum fært í tal fundarstjórn forseta. Í fyrstu var það af þeim sökum að skýringa var óskað á því og óskað ráðstafana vegna þess að tvær nefndir sem allshn. fól ákveðið verk hafa ekki fengið ráðrúm til að skila af sér því verki í 2. umr., sem þó er meginumræða um mál á þinginu.

Í öðru lagi er útlit fyrir að 2. umr. rekist beinlínis á við þessa fundi í nefndunum tveimur, menntmn. og efh.- og viðskn. Mér sýnast vera sjö klukkutímar og 45 mínútur þar til fundurinn hefst í menntmn. Eins og forseti getur ímyndað sér hefur okkur ekki gefist mikill tími til að undirbúa þann fund hingað til. Það var tilkynnt í gærkvöldi, að ég held um svipað leyti, að þessi umræða yrði hér í dag. Kallað var til menntamálanefndarfundarins, ég veit ekki um hina nefndina, um fjögurleytið í dag. Við þingmenn höfum verið trúir lögunum, trúir lögunum liggjum við hér, var sagt um nokkra Spartverja. Trúir 53. gr. sækjum við þingfundi og skiptum okkur af þeim málum sem hér eru sett á dagskrá. Það er kominn tími til þess að forseti fari að hysja upp um sig buxurnar í þessu efni, hætta veisluhöldum, hætta þvermóðsku og stirðleika og svara því hvernig hann ætlar að haga fundum næstu klukkutímana og næstu eyktaskil. Hvernig eigum við að fara að því að undirbúa okkur fyrir þá fundi sem fram undan eru? Við spyrjum þess ekki okkar vegna, vegna þess að við erum auðvitað hetjur og getum staðið allar vaktir, heldur vegna þeirra gesta sem við eigum að hitta og eigum að standa frammi fyrir, ræða við og spyrja út úr. Í mínu tilviki eru það Herdís Þorgeirsdóttir, Styrmir Gunnarsson, Gunnar Smári Egilsson, Magnús Ragnarsson, Sigurður Guðjónsson og Sigurður Líndal. Allt er þetta fólk sem ég vil ekki mæta, ég segi nú ekki í myrkri, en ég vil ekki mæta því óundirbúinn.