2004-05-12 00:39:33# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, SJS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:39]

Steingrímur J. Sigfússon (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær mikilsverðu upplýsingar sem forseti veitti í svari við spurningu minni í fyrri ræðu minni, að það væru 20 þingmenn á mælendaskrá. Jafnframt kem ég hingað til að endurtaka og ítreka óskir um að forseti verði nú við tilmælum, sem ég minnist ekki oft að menn hafi algerlega hafnað, að gera stutt fundarhlé til þess að menn geti aðeins borið saman bækur sínar við aðstæður af þessu tagi. Það er nú alvenjulegt að gera 10--15 mínútna fundarhlé og skapa smá svigrúm fyrir samtöl og hefur oft gefist vel. Menn hafa oft náð landi í svona, að minnsta kosti með skipulagningu þinghaldsins næstu klukkutímana, með því að tala svolítið saman. Svo getum við hin notað tækifærið á meðan og fengið okkur kaffi. Það er nefnilega þannig að á venjulegum vinnustöðum er meira að segja í kjarasamningum hvíldartíma- og kaffihléaákvæði (Gripið fram í.) og þyrfti það auðvitað að vera hér. Ég minnist þess að hv. þm. Halldór Blöndal var iðinn við að heimta slík hlé þegar hann var í stjórnarandstöðu á árum áður, til dæmis í efri deild, og ræddi lengi um þá ósvinnu forseta sem þá var að hann skyldi ekki vera búinn að gefa kvöldmatarhlé og héldi þingmönnum svöngum við störf sín. Þegar leið síðan lengra inn á kvöldið hófust upp sömu ræðuhöldin um nauðsyn þess að gera kaffihlé. Menn hafa því svo sem áður ætlast til þess að þeir fengju bæði eðlilegt ráðrúm til að næra sig og hvíla sig.

Svo vil ég benda virðulegum forseta á að þetta er nú kannski ekki gáfulegasta ráðstöfunin á tíma að þumbast svona við. Farið var fram á það fyrir um hálfri klukkustund að gert yrði svo sem eins og tíu mínútna hlé til að formenn þingflokka og forseti þingsins gætu talað saman. Kannski hefði komið út úr því stutta hléi að umræðan hefði haldið áfram hér í einhvern tíma í viðbót samkvæmt samkomulagi um að henni lyki á tilteknum tíma í nótt og þá bara töluðu þeir sem kæmust að á þeim tíma. Það hefði verið miklu betri ráðstöfun og nýting á tímanum heldur en að halda svona áfram í, mér liggur við að segja, tilgangsleysi og halda á fundarstjórninni með þessum stirðbusahætti.

Ég vona að forseta sé fullkomlega sjálfrátt í þessu efni og að hann geti treyst á eigin dómgreind í því hvað hyggilegast sé að gera. Hann á ekki að taka við fyrirmælum annars staðar frá. Forsetavaldið er hjá þeim sem í stólnum situr hverju sinni. Ég treysti því að núverandi forseti geti íhugað þetta og vegið og metið á eigin forsendum og þá sjái hann að það hefst ekkert upp úr vinnulagi af þessu tagi. Miklu betra er að reyna að ná einhverju lágmarkssamkomulagi um málin eftir því sem það er þá hægt, til dæmis þannig að menn ákveði nú hvenær umræðum ljúki í nótt, hver verði sá lágmarkshvíldartími sem menn fái til að hvílast og undirbúa sig undir morgundaginn. Ég held að öllum sé ljóst að þessari umræðu lýkur ekki hér í nótt og hún verður á morgun líka. Það þjónar því satt best að segja sáralitlum tilgangi að halda þessu hnoði áfram. Ég bið nú forseta að hugsa sinn gang.