2004-05-12 00:49:32# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, GAK (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[24:49]

Guðjón A. Kristjánsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Áðan var minnst á vökulögin sem sett voru þegar óhófleg vinna þótti vera á togaraflotanum í gamla daga. Ég ætlaði að upplýsa hæstv. forseta um það að hámark þess reiðileysis sem menn gátu lýst á einni skútu, sem er farið að líkjast svolítið þeim vinnubrögðum sem hér eru, var þegar menn komust í þá stöðu að fá loftnetið í skrúfuna. Það þótti alveg sérstaklega slæmt og þurfti eiginlega kraftaverk til að lenda í því reiðileysi. Þetta vinnulag minnir eiginlega orðið nokkuð á að menn séu að fá loftnetið í skrúfuna.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, og forseti hlýtur að gera sér grein fyrir því, að stjórn þingsins er í raun farin að standa fyrir lögbroti. Það er einfaldlega þannig að í landinu eru lög um hvíldartíma. (Gripið fram í.) Ég verð að spyrja, hæstv. forseti, ef stjórn þingsins á að vera með þessum hætti í vor, hvort stjórn þingsins ætlar að knýja stjórnarandstöðuna til að leggja fram kæru á vinnulagið hér á Alþingi. Er það virkilega svo?

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég sé engan tilgang í því reiðileysi sem stjórn þingsins hefur komið á síðasta klukkutímann. Það hefði verið skynsamlegra fyrir þveran forseta þingsins að taka upp viðræður við þingflokksformenn, kannski 10 mínútur eða korter, hvort sem honum líkar það betur eða verr, og reyna að finna flöt á því hvernig standa eigi að þinghaldi fremur en sitja í fýlu í sæti sínu og geta ómögulega unnt mönnum þess að ræða við hæstv. forseta þingsins, (Gripið fram í.) hvorki þeim sem er í ræðustól eða þeim sem les blöðin.

Mér finnst ekki neinn sómi af því að gera ekkert með óskir okkar sem eru eðlilegar, um að taka upp viðræður um hvernig standa eigi að þessum næturfundi. Við höfum nefnt þann möguleika að vinna til klukkan tvö eða þrjú. En það virðist ekki hægt að taka upp nokkrar viðræður um það.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að þetta er eiginlega að verða hámark reiðileysisins, eins og hér er staðið að verki.