2004-05-12 01:04:19# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ISG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[25:04]

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er óneitanlega sérkennilegt að fylgjast með þingstörfum og ekki síst að fylgjast með störfum hæstv. forseta þingsins og hvernig hann kemur fram við umbjóðendur sína, leyfi ég mér að segja, þ.e. aðra þingmenn. Það má auðvitað öllum ljóst vera að hæstv. forseti er stríðlyndur og sérsinna oft og tíðum en það nær auðvitað ekki nokkurri átt að forseti þingsins leggi sig eiginlega fram um að ergja þingmenn. Að ergja þingmenn, þreyta þá og niðurlægja þá, eins og gerðist t.d. í gærkvöldi þegar menn töluðu hér hver í kapp við annan til þess að fá upplýsingar um það hvað ætti að gerast í þinginu í dag. Það var klukkan hálftólf í gærkvöldi sem við vorum að tala um það og spyrja hvað ætti að gerast í þinginu þegar við kæmum til þingstarfa í dag og að forseti, sem auðvitað hefur alla möguleika á því að taka til máls eftir að menn hafa spurt spurninga þó svo að menn gefi merki um að þeir vilji tjá sig um stjórn þingsins, skildi ekki upplýsa að hann hefði einhverjar áætlanir um hvernig þingið ætti að starfa á þessum degi. Forseti hefur auðvitað skyldur til þess að vera með einhverjar áætlanir, einhverjar hugmyndir um störf þingsins sem hann getur deilt með öðrum. Það getur vel verið að hann hafi þær fyrir sig en það bara dugir ekki til, hann þarf að vera fær um að deila þeim með öðrum og gera einhverjar áætlanir um það hvernig menn eigi að starfa á hinu háa Alþingi. Það er ekki til þess fallið að auka virðingu Alþingis að standa að málum með þessum hætti.