2004-05-12 03:10:54# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, MÞH (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:10]

Magnús Þór Hafsteinsson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeim upplýsingum sem hæstv. forseti gaf þingheimi rétt áðan þar sem hann tilgreindi að þinghaldi í nótt yrði hætt eftir u.þ.b. klukkutíma, þ.e. klukkan fjögur. Þá eru sennilega margir búnir að standa hér vaktina í um 17 klukkutíma og þykir mörgum orðið nógu gott.

Þetta er búið að vera frekar undarleg nótt. Það hefur gengið á ýmsu bak við tjöldin. Átt hafa sér stað ákveðnar viðræður á milli stjórnarliða og síðan stjórnarandstöðu. Ég get upplýst það að stjórnarliðar hafa reynt að fá stjórnarandstöðu til að semja um að hætta þingfundi á ákveðnum tímapunkti í nótt þannig að stjórnarandstaðan gæti komist heim og fengið einhvern svefn gegn því að stjórnarandstaðan gæfi þá einhvers konar ábyrgð fyrir því hversu lengi 2. umr. skyldi haldið áfram í þinginu á morgun. Slíkt kom ekki til greina af okkar hálfu. Við semjum ekki um umræðutíma í svo mikilvægu máli sem þessu. Það er alveg á hreinu. Sú umræða verður tekin og hún verður kláruð hversu langan tíma sem hún annars tekur. Við höfum nóga orku. Við höfum nógan tíma. Okkur liggur ekkert á. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason benti á áðan mun frv. ekki taka gildi fyrr en eftir rúm tvö ár og einhverjir dagar til eða frá í umræðunni skipta engu máli í því sambandi. Ég taldi rétt að þetta kæmi fram í umræðunni. Ég fagna því enn og aftur að þessu fari brátt að ljúka, þessum farsakennda fundi ef ég má leyfa mér að taka svo sterkt til orða, hæstv. forseti.

Ég vil líka gera smá athugasemdir við það að þeir fáu stjórnarþingmenn sem hafa skráð sig á hina löngu mælendaskrá sem nú liggur fyrir --- ef ég man rétt er 21 þingmaður nú á mælendaskrá --- a.m.k. tveir þeirra hafa verið að rokka niður listann í allt kvöld, annars vegar hv. þm. Hjálmar Árnason og hins vegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson. Mér er það mjög til efs, virðulegi forseti, að þessir þingmenn ætli sér yfir höfuð að taka þátt í umræðunni. Ég hef séð þetta gerast áður. Það gerðist í umræðunni um útlendingafrumvarpið að stjórnarþingmenn settu sig á mælendaskrá þannig að upphafsstafirnir þeirra komu fram á sjónvarpsskerminum og það leit út eins og stjórnarliðar væru mjög aktífir í umræðunum. Fólki sem situr heima í stofu er því á nokkurn hátt talin trú um að stjórnarliðar taki þátt í umræðum á fullu, en það er sýndarmennska og blekking. Þetta er sviðssetning. Þeir ætla sér ekkert að taka þátt. Þeir eru bara með á listanum og síðan þegar umræðan nálgast lokin detta þeir allt í einu út.