2004-05-12 03:14:08# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, ÖJ (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:14]

Ögmundur Jónasson (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Í nótt, í gær og í fyrradag hafa átt sér stað nokkrir fundir formanna þingflokka með hæstv. forseta þingsins um þinghaldið og líklega framvindu í þinginu á næstu dögum. Kannað hefur verið hvort flötur væri á einhverju samkomulagi. Af hálfu stjórnarandstöðunnar höfum við lagt áherslu á að nefndum þingsins sem hefur verið falið að skila áliti um umdeilt fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar yrði skapað svigrúm til vinnu. Það hefur ekki reynst nokkur vilji til þess af hálfu stjórnarmeirihlutans og hefur Framsfl. engu síður verið óbilgjarn í því efni en Sjálfstfl. Hvorugur þingflokkanna, hvorugur formaður þessara þingflokka hefur viljað hlusta á beiðni okkar um að nefndum þingsins, menntmn. og efh.- og viðskn., yrði skapað svigrúm til að vinna málið af einhverju viti. Það sem hefur hins vegar valdið mér miklum vonbrigðum er framganga hæstv. forseta í málinu, vegna þess að við erum vön því að ríkisstjórnin velji sér handarbakið sem vinnuborð. Það þekkjum við. En þegar við leitum til hæstv. forseta þingsins um að hann komi sem fulltrúi stjórnar þingsins þá hefur hann, því miður, gengið erinda ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans í einu og öllu. Þetta gerðist nú á fundi með formönnum þingflokka í nótt þar sem við óskuðum eftir liðsinni hæstv. forseta en þá var ómögulegt að gera nokkurn greinarmun á honum annars vegar og formönnum þingflokka stjórnarmeirihlutans hins vegar. Ég ætla ekki að hafa eftir ummæli hæstv. forseta en ég vil segja það að þetta eru mér mikil vonbrigði, vegna þess að núverandi hæstv. forseti þingsins hefur óneitanlega oft sýnt góða spretti. Því finnst mér það dapurlegt hlutskipti hans að hafa uppi slík vinnubrögð á ögurstundu.