2004-05-12 03:23:58# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, HHj (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:23]

Helgi Hjörvar (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það þarf ekki að koma neinum á óvart þó að fjarvera Framsfl. í þessari umræðu hafi orðið að umfjöllunarefni undir þessum dagskrárlið, enda eru að verða liðnir 14 tímar, 14 klukkustundir samfelldar í efnislegri umfjöllun um málið án þess að heyrst hafi hósti eða stuna í þingmönnum Framsfl., ég skal kannski ekki taka fyrir að hið síðarnefnda hafi heyrst. Það er auðvitað til marks um hið fullkomna áhrifaleysi Framsfl. í stjórnarsamstarfinu. Ekki þarf annað en að hóta þeim því að 15. september verði frestað til að þeir kokgleypi hvað sem er og séu þá heldur heima og þegi frekar en að þurfa að þola það að fara í gegnum efnislega umræðu.

Virðulegur forseti. Ég undrast enn verklagið í þinginu og við hljótum að líta yfir það hvaða árangri hæstv. forseti hefur náð í því. Það er sem sagt þannig að frá því á miðnætti, og nú er klukkan vel að ganga fjögur, hefur forseti haft það fram með því að hér hefur verið haldin ein þingræða. Svo mikið hefur áunnist í umfjöllun málsins með því að keyra það fram á rauða nótt. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur flutt eina þingræðu og hefði trúlega farið betur á því að hún hefði verið flutt á morgun og þá trúlega tekið umtalsvert skemmri tíma og öll sú umræða sem verið hefur í kringum það. Þetta fjögurra tíma streð hæstv. forseta hefur satt að segja ekki orðið til neins.

Það er auðvitað til vansa fyrir hæstv. forseta að gera hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hefur þjónað á Alþingi í yfir 20 ár, það að flytja sína efnismiklu og yfirgripsmiklu ræðu af sinni miklu þingreynslu og af sinni víðtæku þekkingu á þeim mörgu sviðum sem hér eru undir, um miðja nótt fyrir tómum sal. Það er náttúrlega algerlega óboðleg framkoma af hálfu hæstv. forseta við virðulega alþingismenn.

Ég vil taka undir með hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og óska eftir því að fyrst öll stjórn þingsins er undir geðþótta forseta komin en engu samráði, þá verði upplýst hvenær ætlast er til að við mætum til vinnu á morgun, þau sem ekki þurfa að sækja nefndarfundi, og hvort það sé ekki rétt, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi, að þingfundur hefjist kl. 13.30 á morgun þannig að nefndum vinnist tími til þess að ljúka störfum sínum.

(Forseti (BÁ): Forseti vill upplýsa að nefndum hefur verið skammtaður ákveðinn tími í fyrramálið, ýmist frá klukkan korter yfir átta eða hálfníu, og er gert ráð fyrir að þingfundur hefjist kl. 10.30.)