2004-05-12 03:36:26# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, EKG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:36]

Einar K. Guðfinnsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér fóru fram nokkuð dramatísk lýsing á hinni óbilgjörnu afstöðu formanna þingflokka ríkisstjórnarflokkanna sem skilja mátti að væri að standa sérstaklega í vegi fyrir því að hægt væri að ná fram eðlilegu samkomulagi um framhald þingstarfanna. Það má vel vera að þannig birtist þetta einstökum hv. þingmönnum. Vandi okkar er hins vegar sá að í hvert skipti sem við höfum rætt einhverjar hugmyndir um hvernig hægt væri að vinna þessi mál áfram þá er komið fram með nýjar kröfur. Það var auðvitað það sem gerðist á þessum fundum hér í kvöld að þegar menn voru farnir að ræða efnislega um einstaka þætti, þegar við töldum kannski að við værum að sjá til lands í einhverjum hugmyndum í þessum efnum þá komu menn með hugmyndir sem gengu nánast í þveröfuga átt við það sem menn höfðu verið að ræða. Hér voru þó á ferðinni þaulvanir samningamenn sem vita alveg að það er vísasta leiðin til að allt sigli í strand þegar slík vinnubrögð eru viðhöfð.

Það hefur líka komið fram í umræðunni núna að kallað hefur verið endalaust eftir því í þessum löngu umræðum um fundarstjórn forseta að forsendan fyrir því að hægt væri að halda hér áfram efnislegri umræðu væri sú að menn sæju fyrir sér hvernig til dæmis þessum fundi lyki núna í nótt. Hæstv. forseti. var varla búinn að greina frá því að hans hugmynd væri sú að ljúka þessum fundi um fjögurleytið að menn fóru að kalla á það að þessum fundi yrði að ljúka strax og héldu síðan áfram umræðum um fundarstjórn forseta beinlínis í þeim tilgangi, eins og kom fram hjá hv. þm. Jóni Bjarnasyni, að koma í veg fyrir að hin efnislega umræða gæti hafist. Hv. þm. Kristján Möller talaði mjög um það að þess yrði að gæta mjög að fundinum lyki klukkan fjögur og það væri auðvitað þess vegna ekki tóm til að hefja hina efnislegu umræðu. Það er mjög erfitt að eiga við svona málflutning.

Ég vil líka mótmæla því harðlega að ekki hafi verið með eðlilegum hætti tekið þátt í efnislegri umræðu. Hér kom fram meðal annars hjá formanni Samfylkingarinnar í kvöld að hv. formaður allsherjarnefndar hefði haldið hér einar 30 ræður um þessi mál. Svo segja menn að það fari ekki fram eðlileg umræða af hálfu stjórnarliða um málið.

Aðeins að lokum vegna þess sem hv. þm. Kristján Möller taldi upp til þess að koma því inn í þingstíðindin þegar hann reyndi að gera lítið úr hlut hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins þá vil ég bara vekja athygli á því að af 20 manna þingflokki Samfylkingarinnar voru sex til staðar rétt í þann mund sem ég hóf þetta mál mitt. Og af þeim er ekki einn einasti, ekki einn einasti fulltrúi Samfylkingarinnar í allsherjarnefnd Alþingis. Ég held því, virðulegi forseti, að menn ættu að spara sér allan slíkan mannjöfnuð. Við vitum að liðið er á nóttu. Mjög margir þingmenn eru farnir heim til sín af ýmsum ástæðum. (Forseti hringir.) Hér er samt nægur hópur til þess að halda uppi ágætri umræðu. (Forseti hringir.) En það er fráleitt og óvirðulegt við þingmenn að gera lítið (Forseti hringir.) úr hlut þeirra í umræðunni.

(Forseti (BÁ): Forseti vill minna þingmenn á að hámarks ræðutími undir þessum lið er þrjár mínútur.)