2004-05-12 03:47:12# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, BjörgvS (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:47]

Björgvin G. Sigurðsson (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ekki er hægt annað en gera alvarlegar athugasemdir við þá fundarstjórn forseta að ætlast til þess og sem fram kom í máli hans áðan að nefndunum, hv. menntmn. og efh.- og viðskn., séu gefnir innan við tveir klukkutímar í fyrramálið, einn og hálfur til tveir klukkutímar, til að tala við gesti sína, kalla fram þær upplýsingar sem þar kunna að koma fram og munu koma, vinna álit sín til allshn. sem allshn. óskaði sérstaklega eftir að kæmu fyrir 2. umr. en tókst að sjálfsögðu ekki þar sem nefndirnar, a.m.k. menntmn., höfðu ekki einu sinni hafið störf þegar 2. umr. hófst í þinginu í dag.

Því vil ég ítreka þá ósk til virðulegs forseta að hann beiti sér fyrir því --- beiti sér af sama þrótti og hann gerði áðan þegar hann fékk Framsfl. til að leggja orð í belg í þessari umræðu, en ég tel að það hafi verið fyrir tilstilli forseta og áeggjan okkar þingmanna sem sá stórviðburður átti sér stað fyrir nokkrum mínútum að Framsfl. rauf grafarþögnina og lagði nokkur orð í belg í einar þrjár mínútur --- að þingfundur hefjist ekki á morgun fyrr en klukkan hálftvö, þannig að nefndunum gefist lágmarkstóm til sinna starfa að tala við þann gestafjöld sem kallaður hefur verið fyrir nefndirnar. Dragi þær upplýsingar saman sem og aðrar upplýsingar sem hv. þm. munu væntanlega setjast yfir núna klukkan fjögur og dunda sér við að tína saman þangað til klukkan korter yfir átta í fyrramálið. En eins og kunnugt er og fram hefur komið hefst nefndarfundur eftir liðlega fjóra klukkutíma þannig að við þurfum að hafa hraðar hendur á. Okkur mun áreiðanlega ekki, virðulegi forseti, veita af því að þingfundur hefjist ekki fyrr en klukkan hálftvö. Ef það er eitthvað annað en skrípaleikur að láta nefndirnar vinna álit sín um málið sem allshn. óskaði eftir hlýtur virðulegur forseti að verða við þessari hóflegu og kurteislegu beiðni okkar þingmanna stjórnarandstöðunnar í þeim nefndum og gefa okkur og nefndunum það ráðrúm sem við þurfum að algjöru lágmarki til að geta staðið þannig að málum að sómi sé að, bæði fyrir okkur hv. þm. sem og Alþingi allt. Það gefur augaleið að á tveimur klukkutímum í fyrramálið, þar sem varla gefst tími til að ræða við þá gesti sem kallaðir hafa verið fyrir nefndina, gefst okkur augljóslega enginn tími til klukkan hálfellefu í fyrramálið, þar sem við förum strax í umræður í þinginu, að draga þær upplýsingar saman og skila í boðlegu nefndaráliti.