2004-05-12 03:53:40# 130. lþ. 112.1 fundur 974. mál: #A útvarpslög og samkeppnislög# (eignarhald á fjölmiðlum) frv. 48/2004, KLM (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 130. lþ.

[27:53]

Kristján L. Möller (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mér er frekar illa við að þurfa að koma hér upp aftur til að ræða þau mál sem við erum að ræða vegna þess að mér finnst að það hafi leyst úr þessu fyrir 20 mínútum, að það var boðað að fundi mundi ljúka klukkan fjögur og hefði verið betri og meiri mannsbragur að ef það hefði verið gert fyrr.

Aðeins vegna orða hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar út af fjarveru þingmanna og því að ég hafi verið að gera lítið úr þeim hv. stjórnarþingmönnum sem sitja í allshn., sem eru farnir. Ég tók það skýrt fram að ég væri ekki að gagnrýna það að þeir væru farnir heim vegna þess að þeir væru örugglega orðnir þreyttir og þyrftu hvíldar við. Ég vil líka geta þess að allsherjarnefndarfólk okkar í Samf. fékk leyfi til að fara heim og hvíla sig eftir fundinn með forseta sem var klukkan hálfþrjú, til þess að hafa það alveg á hreinu. Á meðan enginn vissi hve lengi átti að halda hér áfram og hvort haldið yrði áfram inn í morgundaginn var sjálfsagt að leyfa ákveðnu fólki að hvíla sig, enda var það fólk, allsherjarnefndarfólkið, búið að vinna fram eftir nóttu síðustu nótt og koma snemma að morgni og vera hér á vaktinni í allan dag. Ég vil hafa það á hreinu og við skulum bera virðingu fyrir allsherjarnefndarfólkinu, hvort sem það er í stjórnarmeirihluta eða minni hluta, það hefur verið að vinna mikla og erfiða vinnu, stranga vinnu, og það er eðlilegt að það fólk sé farið heim til að hvíla sig fyrir átök morgundagsins.

Líka út af því að sex þingmenn Samf. væru í húsi á þeim tíma sem þau orð voru sögð af hv. þm. þá voru þeir nokkrum mínútum áður margfalt fleiri, vegna þess að við sátum á fundi með þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Frjálsl. Á meðan hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var í ræðustól notuðum við tímann til að bera saman bækur okkar, enda var þá fundi með forseta nýlokið.

Virðulegi forseti. Ég held að það séu komin þreytumerki í alla hér, það er nokkuð ljóst, og kominn galsi í suma. Ég held að það fari vel á því að við hættum þessari umræðu núna og förum og hvílum okkur, nefndarfólkið sem þarf að funda kl. 8.15 í fyrramálið fær vonandi tóm til að vinna sína vinnu almennilega, og við hefjumst hér handa. Ég ítreka það sem ég sagði, virðulegi forseti, mér hefði fundist meiri mannsbragur að því og betra fyrir þingið ef við hefðum byrjað á morgun kl. 13.30, en það hefur verið boðað hér að byrja kl. 10.30. Ég læt þá ósk í ljós, virðulegur forseti, að umræðum verði nú hætt og við göngum til hvílu.