Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:39:38 (7965)

2004-05-12 10:39:38# 130. lþ. 113.93 fundur 553#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:39]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Við heyrum hér hvernig málin hafa gengið í morgun eftir fundi næturinnar og spádóma um vinnu í efh.- og viðskn. og menntmn. og það sem m.a. var rætt við hæstv. forseta á fundum formanna þingflokka oft og títt í gær og í nótt. Það er að koma á daginn.

Það kemur reyndar miklu meira fram. Svo virðist sem flóttinn hjá Framsfl. í þessu máli sé að byrja. Því er lýst hér hvernig átti að taka málið út úr efh.- og viðskn. með dagskrártillögu hv. formanns nefndarinnar eins og oft er farið að gera í efh.- og viðskn. Sú tillaga fékk aðeins tvö atkvæði. Annar fulltrúi Framsfl. greiddi atkvæði á móti og hinn fulltrúi Framsfl. sat hjá. Þetta eru ansi athyglisverð skilaboð og benda kannski til þess að Framsókn sé að koma af fjöllum og muni koma inn á sviðið og taka þátt í þessu leikriti sem skrifað hefur verið af forustumönnum ríkisstjórnarinnar. Þetta verður þá kannski ekki einþáttungur.

Þetta er ansi athyglisvert og það er líka athyglisvert að á fundi nefndarinnar voru fulltrúar Samkeppnisstofnunar, eins og hér kom fram, að ræða málið og náðu ekki að klára. Þar töluðu þeir um andlitslyftingu og að frv. væri í andstöðu við markmið samkeppnislaga. Ætla menn ekkert að hlusta á þetta? Á að halda áfram að keyra hér?

Virðulegi forseti. Fyrir jól átti að fremja stjórnarskrárbrot í efh.- og viðskn. Er ég þá að vitna í vaxtalögin þar sem þau hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir fluttu dagskrártillögu um að kanna málið betur. Til hvers leiddi það? Ég sat þann fund og ég minnist þess þegar hv. þm. Pétur Blöndal sagði: Ef nokkur vafi er á nýtur stjórnarskráin hans. Hann setti mál í gang --- sem leiddi til hvers? Ríkisstjórnin kom til baka með skottið milli lappanna og breytti málinu. Stjórnarandstaðan hafði þá eins og oft áður, herra forseti, á réttu að standa og það var líka oft í gærkvöldi og nótt.