Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 10:46:57 (7970)

2004-05-12 10:46:57# 130. lþ. 113.93 fundur 553#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (aths. um störf þingsins), KHG
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[10:46]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ákveðnar reglur gilda um það hvernig standa eigi að því að ljúka umfjöllun um mál í nefndum og hvernig eigi að taka þau út úr nefnd. Að vísu hefur verið varpað dálítilli skuggaóvissu á það með því að formaður efh.- og viðskn. tók upp á eigin dæmi mál út úr nefnd og forseti Alþingis kvað ekki skýrt á um það hvort slíkt væri heimilt eða ekki. Það þarf auðvitað að fá niðurstöðu í slíkt mál og ég mun beita mér fyrir því að efh.- og viðskn. ræði það mál og komist að niðurstöðu um hvort hún telji rétt að formaður nefndarinnar geti tekið mál út einn og sér, vísað því til þingsins og lokið athugun nefndarinnar á málinu þannig.

Í 27. gr. þingskapa segir svo, með leyfi forseta:

,,Þegar máli hefur verið vísað til nefndar til athugunar tekur hún ákvörðun um málsmeðferð og getur þá jafnframt falið einum nefndarmanni að vera framsögumaður málsins. Framsögumaður skal þá fyrir hönd nefndarinnar vinna að athugun málsins, gera tillögu um afgreiðslu þess og drög að nefndaráliti þegar hann hefur lokið athugun sinni.``

Tillagan í morgun um það að taka út úr nefndinni umsögn um mál frá allshn. var lögð fram án þess að lokið væri að ræða við þann gest sem var fyrir nefndinni og án þess að fyrir lægju drög að nefndaráliti frá formanni um það hver ætti að vera afstaða nefndarinnar. Það var því á engan hátt hægt að styðja afgreiðslu málsins á þeim tíma. Hins vegar tel ég rétt að nefndin beiti sér fyrir því að ljúka athugun málsins sem fyrst og skila áliti sínu til allshn.