Afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps

Miðvikudaginn 12. maí 2004, kl. 11:17:52 (7986)

2004-05-12 11:17:52# 130. lþ. 113.92 fundur 552#B afgreiðsla fjölmiðlafrumvarps# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er alveg nauðsynlegt að það komi hér fram, hæstv. forseta til upplýsingar og ekki síður formanni þingflokks Sjálfstfl., hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, að það er ekki rétt að þetta mál hafi verið afgreitt samhljóða til allshn. Ég gerði hér í umræðum um atkvæðagreiðslu tillögu um menntmn. og það var gengið til atkvæða. Hæstv. forsrh. hélt sig við tillögu sína um allshn. og hún var samþykkt með 33 atkvæðum stjórnarliðsins. 23 þingmenn stjórnarandstöðunnar greiddu atkvæði á móti, með vísan til tillögu sem fyrir lá um menntmn.

Til að liðka fyrir málum bauð forsrh. það hins vegar fram af sinni hálfu og lagði á það áherslu að það væri sjálfsagt mál að allshn. sendi þetta, samkvæmt venjum og hefðum hér í þinginu, til formlegrar umsagnar hjá fagnefndunum. (Gripið fram í: Já, menntmn.) Menntmn., og þá þótti mönnum auðvitað eðlilegt að efh.- og viðskn. fengi málið einnig. Þetta var gert með bréfi samkvæmt venjum sem við þekkjum.

Þegar hv. þm. Einar K. Guðfinnsson vælir hér út af stjórnarandstöðunni ætti hann að líta í eigin barm. Hvers konar verkstjórn er á þessu máli hjá meiri hlutanum? Hvers konar verkstjórn er það að sjá ekki til þess að menntmn. og efh.- og viðskn. ljúki störfum og séu tilbúnar með sín álit í takt við allshn.? Meiri hlutinn hefur þetta allt í hendi sér, ræður í nefndunum, hefur meiri hluta.

Svo var uppákoman í efh.- og viðskn. í morgun. Er hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, vanur maðurinn, stoltur af því hvernig hlutirnir ganga þar fyrir sig, að formaður nefndarinnar kemur með nefndarálit sem hann hefur ekki sýnt samstarfsflokknum og ber upp dagskrártillögu um afgreiðslu málsins sem kolfellur? Hann hefur ekki meiri hluta fyrir tillögum sínum í nefndinni sem hann stýrir. (Gripið fram í.) Það er meiri upphefðin. Hann er bara eins og valdalaus skipstjóri á skútu. Messaguttarnir hafa tekið yfir og skipstjórinn bara rekinn út í horn. Þetta er glæsilegt verklag, er það ekki?

Svo vælir hv. þm. Einar K. Guðfinnsson undan því að stjórnarandstaðan láti ekki bjóða sér þessi vinnubrögð og vilji standa hér á rétti sínum, bendi á slíka ágalla á málsmeðferð og verkstjórn sem blasa við augum og eru engin uppgerð --- eða hvað? Hvernig þætti t.d. ef fagnefndirnar hefðu ekki haft tíma til að afgreiða álit sín til fjárln.? Þætti það góður svipur á 2. umr. fjárlagafrv. ef svo væri, að formaður fjárln. hefði allt í einu þjösnað bara málinu út í nóvember og það vantaði öll álit fagnefndanna? Nei, auðvitað ekki, það dytti engum manni í hug. Þetta er nákvæmlega sambærilegs eðlis. Hér er um formlega aðgerð samkvæmt hefðum í þinginu að ræða, að senda málið til álits í nefndunum. Eins og ég segi, það eru ekki bara nefndarmenn í allshn. sem eiga rétt á því að fá þau álit heldur líka við þingmenn allir hér við umræðuna.

Auðvitað er þetta verklag allt til skammar. Ég held að meirihlutamenn ættu að líta í eigin barm frekar en að halda fleiri grátræður eins og hér var flutt áðan.